Míní-pavlóvur í partíið

Pavlóvurnar hennar Hönnu.
Pavlóvurnar hennar Hönnu. mbl.is/Hanna Þóra

Öll elskum við pavlovur og tilhugsunin um míní-pavlóvur fær flesta til að hugsa sér gott til glóðarinnar. Míní-jólapavlóvur er líka nokkuð sem hægt er að vinna með og þá væri hægt að leika sér ansi mikið með hráefnið.

Þessi uppskrift er komin frá henni Hönnu Þóru sem lumar á ógrynni girnilegra uppskrifta. Þessa hreinlega stóðumst við ekki en að sögn Hönnu dugar uppskriftin í 40-45 kökur og það ætti að taka tvo og hálfan tíma að gera þær. Einnig minnir hún á að þær þurfi að vera í ofninum yfir nótt en ekki viljum við að marensinn falli!

Hanna bendir jafnframt á að marenstoppana megi búa til nokkrum dögum áður. Mascarponekremið megi einnig búa til áður og það sé í lagi að hafa það í sprautunni yfir nótt en best sé þó að búa það til samdægurs.

Míní-pavlóvur

Marenstoppar

  • 4 eggjahvítur
  • 175 g sykur
  • 1 msk maísmjöl
  • 1 tsk hvítvínsedik

 Mascarponekrem

  • 250 g mascarponeostur – láta hann standa aðeins við stofuhita áður en hann er notaður – þá verður hann mýkri
  • 1 eggjarauða
  • 50 g flórsykur
  • 1 vanillustöng
  • 2½ dl rjómi

Skraut

  • Ber eins og t.d. hindber, jarðarber eða bláber.

Aðferð:

Marenstoppar

  1. Ofn hitaður í 150°C (blásturstilling).
  2. Eggjahvítur þeyttar hálfstífar.
  3. Helmingnum af sykrinum bætt út í smám saman og marens þeyttur í stífa toppa.
  4. Hinn helmingurinn af sykrinum hristur með maísmjölinu og hrært (með sleikju) út í þar til blandan er slétt.
  5. Ediki bætt í síðast – blandað saman varlega með sleikju.
  6. Sett í sprautu og litlir toppar myndaðir á bökunarpappír.
  7. Hver plata er bökuð fyrst í 10 mínútur á 150°C og svo er hitinn lækkaður í 120°C og bakað í 5 mínútur. Betra að baka eina plötu í einu þar sem gott er að færa hana neðar í ofninn þegar hitinn er lækkaður og bakað er í síðustu 5 mínúturnar.
  8. Eftir þessar 15 mínútur er platan tekin út og hitinn hækkaður aftur í 150°C. Þegar ofninn hefur náð þeim hita er næsta plata sett inn.
  9. Þegar búið er að baka alla toppana er slökkt á ofninum og allar bökunarplöturnar settar inn í hann. Látnar standa þar yfir nótt.  
  10. Ath. þegar kökurnar eru nýbakaðar eru þær sléttar og fínar. Þegar þær hafa staðið yfir nóttina krumpast þær aðeins en það er vegna þess að pavlovubotninn er í eðli sínu svolítið mjúkur (ekki stökkur eins og marens).

Mascarponekrem

  1. Eggjarauða og flórsykur hvítþeytt saman.
  2. Vanillustöngin klofin í tvennt, skafið úr henni og vanillukornin þeytt með.
  3. Mascarponeostinum hrært varlega í eggjahræruna í skömmtum þar til blandan er slétt.
  4. Gætið þess að hræra ekki of mikið (þá getur blandan orðið kornótt).
  5. Rjóminn þeyttur og honum hrært varlega út í síðast – gott að nota sleikjur til að blanda saman.
  6. Kremið sett í sprautu (hægt að kaupa einnota sprautur þó að það sé ekki mjög umhverfisvænt).
  7. Kreminu sprautað ofan á hvern topp og skreytt með einu hindberi, bláberi eða jarðarberi. Það er ekki nauðsynlegt að sprauta kreminu á strax – það má bíða aðeins í sprautunni ef það hentar betur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert