Vinsælustu uppskriftir Svövu

Svava Gunnarsdóttir.
Svava Gunnarsdóttir. mbl.is/Ljúfmeti.com

Svava á Ljúfmeti og lekkerheit er einn visælasti matarbloggari landsins og hefur stöðugt bæst í lesendahópinn frá því að hún byrjaði að blogga í stofusófanum árið 2012. Síðan fékk á dögunum veglega andlitslyftingu og ekki annað hægt en að dást að síðunni sem er í senn bæði sérlega innihaldsrík og falleg.

Svava tók á dögunum saman lista yfir vinsælustu uppskriftirnar sínar og þar kennir ýmissa ljúffengra grasa eins og við var að búast.

Við rákum augun sérstaklega í Mexíkó lasagnað hennar en eins og alþjóð veit þá er landinn sérlega hrifinn af mexíkóskum mat ef marka má vinsælustu frétt Matarvefjarins í fyrra. 

Sérlega girnilegur kjúklingur.
Sérlega girnilegur kjúklingur. mbl.is/Ljúfmeti.com

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

  • 1 stór sæt kartafla
  • 1 poki spínat
  • 4-5 kjúklingabringur
  • 1 krukka fetaostur
  • 1 lítill rauðlaukur, skorinn fínt
  • heilsutómatar eða konfekttómatar, skornir í bita
  • furuhnetur
  • balsamik gljái

Hitið ofninn í 180°. Skrælið sæta kartöflu og skerið í sneiðar eða sneiðið með ostaskera. Látið kartöflusneiðarnar í eldfast mót, setjið smá ólífuolíu yfir, saltið og piprið og setjið inn í ofn í 15 mínútur eða á meðan kjúklingurinn er undirbúinn.

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið stutt (lokið þeim) á heitri pönnu. Kryddið eftir smekk (mér þykir t.d. gott að nota fajita-krydd).

Þegar kartöflurnar hafa verið í ofninum í 15 mínútur eru þær teknar út. Setjð spínat yfir sætu kartöflurnar og kjúklinginn yfir spínatið. Stráið tómötum og rauðlauk yfir og hellið að lokum fetaostinum ásamt olíunni yfir allt. Setjið í ofn og bakið í 30 mínútur.

Á meðan rétturinn er í ofninum eru furuhnetur ristaðar.  Þegar rétturinn kemur úr ofninum er furuhnetunum stráð yfir og balsamik gljáa dreypt yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert