Tómatsúpa með chilí nachos, fetamulningi og jalapeno-jógúrtsósu

Girnileg og gómsæt.
Girnileg og gómsæt. mbl.is/grgs.is

Hvað er betra en heit og góð súpa með alls konar góðgæti þegar lægðir herja á landið með tilheyrandi úrkomu og leiðindum?

Þessi súpa kemur úr smiðju Berglindar Guðmundsdóttur á Gulur, rauður, grænn og salt og við máttum til með að deila henni enda erfitt að standast eitthvað sem inniheldur bæði nachos og fetamulning... og jalapeno-jógúrtsósu. Þessi verður prófuð hið snarasta!

Tómatsúpa með chilí nachos, fetamulningi og jalapeno-jógúrtsósu
Fyrir 4-6

  • 2 msk. ólífuolía
  • 1 búnt vorlaukur, skorinn smátt
  • 1 búnt kóríander (stilkar), ferskt
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 450 g grillaðar paprikur, í krukku
  • 2 dósir saxaðir tómatar
  • 850 ml vatn, soðið

Jógúrtsósa

  • 250 ml AB-mjólk
  • 2 tsk. saxað jalapeno
  • 1/2 búnt mynta, fersk

Chilí nachos

  • 1 poki tortillur
  • 1-2 græn eða rauð chilí
  • mozzarella-ostur, rifinn

Borið fram sem meðlæti

  • 1 avacado, þroskað
  • kóríander (lauf)
  • 1 askja kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
  • 1 rautt chilí, skorið í sneiðar
  • 1/2 krukka fetaostur með kryddolíu

Aðferð:

  1. Setjið olíu í pott og steikið vorlaukinn. Bætið stilkunum af kóríander út á pönnuna en geymið laufin. Bætið þá hvítlauk saman við ásamt grilluðum paprikum og tómötum í dós.
    Hellið 850 ml af sjóðandi vatni saman við og saltið. Látið malla.
    Gerið chilí nachos með því að setja nachos-flögur á ofnplötu með smjörpappír, chilí yfir það og strá mozzarella osti yfir allt. Setjið í 200°c heitan ofn þar til osturinn er bráðinn.
    Setjið AB-mjólk og jalapeno, smá af vökvanum sem jalapeno liggur í ásamt ferskri myntu í blandara. Maukið og setjið í skál.
    Maukið súpuna með töfrasprota og bætið safa af hálfri límónu og saltið og piprið að eigin smekk.
    Hellið í skálar og berið fram með chili nachos, jógúrtsósu og niðurskornu meðlæti í skálum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert