Berglind Guðmundsdóttir, sem er með matarvefinn Gulur, rauður, grænn & salt, grgs.is, gaf fljótlega uppskrift að buffi. Uppskriftin er úr nýrri bók GRGS sem er samnefnd vefnum og inniheldur bókin einfaldar og fljótlegar uppskriftir eins og þessa sem tekur aðeins 15 mínútur að gera.
Þetta buff er svo sannarlega í sparifötunum. Gott krydd og vínberjasósa gera þennan einfalda hversdagsmat að veislumat, segir hún.
Rósmarínbuff í vínberjasósu
- 450 g nautahakk
- 2 msk rósmarín
- 1 msk estragon
- hnífsoddur chiliflögur
- salt og pipar
- 1 msk ólífuolía
- 2 rauðlaukar, smátt skornir
- 1 hvítlauksrif, pressað
- 300 g vínber, skorin í tvennt
- 250 ml rjómi
Aðferð:
- Mótið hakkið í buff og kryddið með salti og pipar. Blandið rósmaríni, estragoni og chiliflögum saman við og nuddið helmingnum af blöndunni á buffin. Geymið hinn helminginn.
- Setjið olíu á pönnu og brúnið kjötið. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Steikið laukinn á sömu pönnu og bætið hvítlauk, vínberjum og afganginum af kryddblöndunni saman við. Steikið í 2-3 mínútur. Bætið rjóma saman við og hitið að suðu. Setjið kjötið út í og látið malla við vægan hita. Smakkið til með salti og pipar.