Þetta er ekkert sérlega flókið: Allt sem inniheldur Camembert-ost er gott! Camembert-snittur eru það því augljóslega líka og hvað þá ef þær eru paraðar saman með perum, klettasalati og ristuðum furuhnetum.
Það er Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn af þessum snittum sem munu sannarlega slá í gegn við hvert tilefni.
Camenbert snitta með sætri peru
- 1 stk. baguette-brauð
- 1 ½ Camenbert-ostur
- 1 ½ pera
- Klettasalat (um ½ poki)
- Ristaðar furuhnetur (um ½ poki)
- Ólífuolía
- Hvítlauksduft
- Gróft salt
- Sykur og smjör til að brúna perusneiðarnar
Aðferð:
- Skerið brauðið á ská í sneiðar, penslið með ólífuolíu, stráið hvítlauksdufti og grófu salti yfir. Ristið í um 3 mínútur í ofni við 200°C.
- Kælið brauðið aðeins og setjið klettasalat yfir hverja sneið.
- Skerið peruna í sneiðar sem passa brauðstærðinni ykkar (ekki of þykkar).
- Stráið sykri á pönnu, hitið þar til hann bráðnar og bætið þá smjörklípu saman við og lækkið hitann.
- Brúnið perusneiðarnar á báðum hliðum, þegar þið snúið er Camenbert-sneið lögð á hverja perusneið þar til osturinn fer aðeins að bráðna.
- Þá er peru-/Camenbert-sneiðin færð yfir á snittuna, ofan á klettasalatið.
- Ristuðum furuhnetum er að lokum stráð yfir.