Skotheldar vatnsdeigsbollur með kókosbollu-berjarjóma og saltkaramellu

Þessar eru svakalegar.
Þessar eru svakalegar. mbl.is/Berglind Guðmundsdóttir

Ef þessi bolla sameinar ekki drauma og þrár ansi margra þá vitum við ekki hvað. Hér mætast kókosbollur og saltkarmella í hinni fullkomnu bollu sem hin eina sanna Berglind Guðmundsdóttir hjá Gulur, rauður, grænn og salt galdraði fram fyrir okkur.

Þessar geta ekki klikkað – njótið vel!

Skotheldar vatnsdeigsbollur með kókosbollu-berjarjóma og saltkaramellu

10-12 stk.

  • 80 g smjörlíki
  • 2 dl vatn
  • 100 g hveiti
  • hnífsoddur salt
  • 2 stór egg

Aðferð:

  1. Setjið smjörlíki og vatn í pott og hitið þar til smjörlíkið hefur bráðnað.
  2. Hrærið hveitinu saman við með sleif þar til það hefur blandast vel saman. Bætið saltinu út í. Takið af hellunni og látið standa í um 15 mínútur eða þar til það hefur kólnað.
  3. Setjið deigið í hrærivélaskál og bætið eggjunum saman við einu í einu og varist að deigið verði of þunnt.
  4. Mótið bollur á ofnplötu hulda með smjörpappír.
  5. Setið bollurnar í 200°C heitan ofn og bakið í um 20-30 mínútur. Varist að opna ofninn meðan þær eru að bakast því þá falla þær saman. Bollurnar eru tilbúnar þegar þær eru orðnar gylltar og stökkar.

Hindberjarjómi

  • 3 dl rjómi
  • 125 g hindber
  • 1 msk. flórsykur
  • 1-2 kókosbollur

Þeytið rjómann. Setjið berin í matvinnsluvél þar til þau hafa maukast eða stappið með gaffli. Blandið saman við rjómann ásamt flórsykri og hrærið varlega saman með sleif. Stappið kókosbollu með gaffli og bætið saman við rjómann. Setjið á bollurnar.

Saltkaramella

  • 100 g ljós púðursykur
  • 4 msk. rjómi
  • 120 ml rjómi
  • 1 tsk. vanilludropar
  • Hnífsoddur salt

Setjið öll hráefnin í pott og látið sjóða við meðalhita. Hrærið í sósunni þar til hún hefur þykknað í 5-7 mínútur. Kælið lítillega og hellið yfir bollurnar.

Hinar fullkomnu bollur.
Hinar fullkomnu bollur. mbl.is/Berglind Guðmundsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert