Guðdómlegt grænmetislasagna

mbl.is/Hanna Þóra

Grænmetislasagna er mögulega einn vanmetnasti réttur sem sögur fara af. Hann er sérdeilis bragðgóður - ef uppskriftin er góð - og yfirleitt ákaflega hollur. Grænmetislasagna er í uppáhaldi hjá mörgum og hér kemur uppskrift sem á ekki að klikka enda er það Hanna Þóra sem heldur úti matarblogginu hanna.is sem á heiðurinn að henni.

Sjálf segir Hanna Þóra að þessi réttur sé bæði góðour og einfaldur, auk þess sem þægilegt sé að búa hann til. Við biðjum ekki um meira. Gjörið svo vel.

Guðdómlegt grænmetislagagna

  • 250 – 300 g lasagnaplötur
  • 1 stór gulur laukur eða 1½ lítill – saxaður fínt
  • 2 – 3 hvítlauksrif – söxuð fínt
  • 1 msk olía + ½ msk smjör
  • 3 msk tómatpúrra
  • 800 – 850 g niðursoðnir tómatar
  • 1 – 2 vel þroskaðir tómatar – skornir í bita (má sleppa)
  • 1 msk hunang
  • 1 grænmetisteningur
  • 2 msk ferskt timjan eða 1 tsk þurrkað
  • 200 – 250 g spínat – ferskt eða fryst
  • 12 – 15 salvíublöð eða 1 msk þurrkuð salvía
  • 1 tsk gróft salt
  • Pipar
  • 2 pakkar (2 x 225 g) halloumiostur – skorinn í þunnar sneiðar
  • 1½ dl graskersfræ – mega gjarnan vera ristuð
  • 2½ dl parmesanostur
  • Hugmyndir að skrauti eftir að lasagna er komið úr ofninum: Granatepli, hnetur, ferskt spínat eða graskerfsræ

Aðferð

  1. Ofninn stilltur 170° – 175°C (yfir- og undirhiti)
  2. Laukur og hvítlaukur steiktir upp úr olíu og smjöri á lágum hita þar til laukurinn verður glær
  3. Tómatpúrru bætt saman við og steikt aðeins
  4. Maukaðir tómatar settir út í ásamt, niðurskornum tómötum, hunangi, grænmetisteningi og timjan – látið malla á meðalhita í 5 mínútur (án loks)
  5. Spínati og salvíu blandað saman við og látið malla í 10 mínútur. Kryddað með salti og pipar
  6. Spínat- og tómatblandan, halloumiostur, lasagnaplötur og graskersfræ sett til skiptis í eldast mót – u.þ.b. 20 x 30 cm að stærð. Best að hafa tómat- og spínatblönduna neðst (næst koma lasagnaplötur, haloumiostur og síðan graskersfræ).  Best að enda með tómat- og spínatblöndunni (ætti að vera hægt að ná 3 – 4 lögum). Parmesanostur er settur efst
  7. Haft í ofninum í 45 mínútur. Gaman að skreyta með granateplum, hnetum og salvíu eða fersku spínati áður en fatið er borið fram

Meðlæti

Nýbakað brauð og ferskt salat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka