Hinn fullkomni helgarkjúklingur

mbl.is/Nanna Rögnvaldar

Það er ekki annað hægt en að elda þessa upp­skrfit. Hún kem­ur úr smiðju Nönnu Rögn­vald­ar og á ræt­ur að rekja til Perú.

Hér er kjúk­ling­ur­inn hafður heill og kryddaður með alls kyns dá­semd­ar­kryddi sem ger­ir bragðið al­gjör­lega ein­stakt. Ef þig lang­ar í ljúf­feng­an helgar­bita þá mæl­um við hik­laust með þess­um.

Kon­an sem kynd­ir ofn­inn sinn.

Hinn fullkomni helgarkjúklingur

Vista Prenta

Grillaður Perú-kjúk­ling­ur með grænni sósu

  • 1 kjúk­ling­ur, um 1,6 kg
  • 2 límón­ur
  • 3-4 hvít­lauks­geir­ar
  • 4 msk. ólífu­olía
  • 2 tsk. papriku­duft, gjarna reykt
  • 2 tsk. kumm­in
  • 1 tsk. óreg­anó, þurrkað
  • salt og pip­ar

Græn Perúsósa

  • 2-3 chili-ald­in, helst jalapeno
  • 1 1/​2 knippi kórí­and­erlauf
  • 2-3 hvít­lauks­geir­ar
  • 100 g maj­ónes
  • 4 msk. sýrður rjómi
  • safi úr 1 límónu
  • salt og pip­ar
  • 2 msk. ólífu­olía

Aðferð:

Hér er notaður heill kjúk­ling­ur, um 1,6 kg, og hann þarf að marín­era í nokkra klukku­tíma eða allt að sól­ar­hring. Ég reif börk­inn af tveim­ur límón­um í skál og kreisti saf­ann úr þeim yfir. Pressaði svo 3-4 hvít­lauks­geira og setti út í, ásamt 4 msk. af ólífu­olíu, 2 tsk. af papriku­dufti (ég var með reykta papriku og það er betra en ekki nauðsyn­legt), 2 tsk. af kumm­ini og 1 tsk. af þurrkuðu óreg­anói, ásamt salti og pip­ar, og hrærði þetta vel sam­an.

Svo losaði ég ham­inn frá kjúk­lingn­um á bring­unni og út á lær­in, án þess að rífa hann, með því að stinga hend­inni inn und­ir ham­inn. Setti u.þ.b. helm­ing­inn af krydd­leg­in­um und­ir ham­inn og setti svo kjúk­ling­inn í eld­fast mót og dreifði af­gang­in­um af marín­er­ing­unni yfir. Breiddi plast­filmu yfir og setti kjúk­ling­inn í kæli.

Dag­inn eft­ir hitaði ég svo ofn­inn í 230°C og steikti kjúk­ling­inn í um hálf­tíma. Lækkaði svo hit­ann í 180°C og steikti kjúk­ling­inn áfram í um 40 mín­út­ur. Einnig má grilla kjúk­ling­inn og þá er byrjað á að hita grillið vel og hafa það lokað á meðan. Svo er slökkt  á ein­um/​öðrum brenn­ar­an­um, kjúk­ling­ur­inn sett­ur þar sem eng­inn eld­ur er und­ir, grill­inu lokað og kjúk­ling­ur­inn grillaður við meðal­hita í u.þ.b. 1 klst. og 15 mín­út­ur, eða þar til hann er steikt­ur í gegn. Tím­inn get­ur verið nokkuð mis­jafn eft­ir aðstæðum en best er að opna grillið sem minnst.

Á meðan kjúk­ling­ur­inn mallaði gerði ég sós­una, sem er nokkuð krass­andi. Tók 2-3 chili-ald­in, helst jalapeno – ég lét fræ­in vera í þeim en ef maður vill mild­ari sósu má fræhreinsa þau. Setti þau í bland­ara eða mat­vinnslu­vél ásamt einu og hálfu knippi af kórí­and­erlaufi og 2-3 hvít­lauks­geir­um og maukaði þau. Bætti við 100 g af maj­ónesi (ég var með heima­gert en það má al­veg nota Gunn­ars), 4 msk. af sýrðum rjóma, safa úr 1 límónu, pip­ar og salti og lét vél­ina ganga þar til kom­in var slétt sósa. Þeytti að lok­um 2 msk. af ólífu­olíu sam­an við.

mbl.is/​Nanna Rögn­vald­ar
mbl.is
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert