Hinn fullkomni helgarkjúklingur

mbl.is/Nanna Rögnvaldar

Það er ekki annað hægt en að elda þessa uppskrfit. Hún kemur úr smiðju Nönnu Rögnvaldar og á rætur að rekja til Perú.

Hér er kjúklingurinn hafður heill og kryddaður með alls kyns dásemdarkryddi sem gerir bragðið algjörlega einstakt. Ef þig langar í ljúffengan helgarbita þá mælum við hiklaust með þessum.

Konan sem kyndir ofninn sinn.

Grillaður Perú-kjúklingur með grænni sósu

  • 1 kjúklingur, um 1,6 kg
  • 2 límónur
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 4 msk. ólífuolía
  • 2 tsk. paprikuduft, gjarna reykt
  • 2 tsk. kummin
  • 1 tsk. óreganó, þurrkað
  • salt og pipar

Græn Perúsósa

  • 2-3 chili-aldin, helst jalapeno
  • 1 1/2 knippi kóríanderlauf
  • 2-3 hvítlauksgeirar
  • 100 g majónes
  • 4 msk. sýrður rjómi
  • safi úr 1 límónu
  • salt og pipar
  • 2 msk. ólífuolía

Aðferð:

Hér er notaður heill kjúklingur, um 1,6 kg, og hann þarf að marínera í nokkra klukkutíma eða allt að sólarhring. Ég reif börkinn af tveimur límónum í skál og kreisti safann úr þeim yfir. Pressaði svo 3-4 hvítlauksgeira og setti út í, ásamt 4 msk. af ólífuolíu, 2 tsk. af paprikudufti (ég var með reykta papriku og það er betra en ekki nauðsynlegt), 2 tsk. af kummini og 1 tsk. af þurrkuðu óreganói, ásamt salti og pipar, og hrærði þetta vel saman.

Svo losaði ég haminn frá kjúklingnum á bringunni og út á lærin, án þess að rífa hann, með því að stinga hendinni inn undir haminn. Setti u.þ.b. helminginn af kryddleginum undir haminn og setti svo kjúklinginn í eldfast mót og dreifði afganginum af maríneringunni yfir. Breiddi plastfilmu yfir og setti kjúklinginn í kæli.

Daginn eftir hitaði ég svo ofninn í 230°C og steikti kjúklinginn í um hálftíma. Lækkaði svo hitann í 180°C og steikti kjúklinginn áfram í um 40 mínútur. Einnig má grilla kjúklinginn og þá er byrjað á að hita grillið vel og hafa það lokað á meðan. Svo er slökkt  á einum/öðrum brennaranum, kjúklingurinn settur þar sem enginn eldur er undir, grillinu lokað og kjúklingurinn grillaður við meðalhita í u.þ.b. 1 klst. og 15 mínútur, eða þar til hann er steiktur í gegn. Tíminn getur verið nokkuð misjafn eftir aðstæðum en best er að opna grillið sem minnst.

Á meðan kjúklingurinn mallaði gerði ég sósuna, sem er nokkuð krassandi. Tók 2-3 chili-aldin, helst jalapeno – ég lét fræin vera í þeim en ef maður vill mildari sósu má fræhreinsa þau. Setti þau í blandara eða matvinnsluvél ásamt einu og hálfu knippi af kóríanderlaufi og 2-3 hvítlauksgeirum og maukaði þau. Bætti við 100 g af majónesi (ég var með heimagert en það má alveg nota Gunnars), 4 msk. af sýrðum rjóma, safa úr 1 límónu, pipar og salti og lét vélina ganga þar til komin var slétt sósa. Þeytti að lokum 2 msk. af ólífuolíu saman við.

mbl.is/Nanna Rögnvaldar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert