Hér gefur að líta lambakjötsuppskrift sem hljómar syndsamlega vel. Bræddur hvítmygluostur og karmelliseraður rauðlaukur hljómar eins og eitthvað sem mögulega mun breyta lífinu til hins betra og þar sem uppskriftin er komin frá Ragnari Frey Ingvarssyni - betur þekktum sem Lækninum í eldhúsinu - þá vitum við að hún er lostæti.
Lambalæri fyllt með karmelliseruðum rauðlauk og hvítmygluosti með rauðvínssoðsósu og sætkartöflurösti
Lambið
- 1 lambalæri
- 6 rauðlaukar
- 150 g smjör
- 25 ml balsamikedik
- 2 msk hlynsíróp
- hálfur ljúflingur (hvítmygluostur)
- salt og pipar
- 2 msk jómfrúarolía
Sósan
- Bein af heilu lambalæri
- 2 gulrætur
- 1 rauðlaukur
- 2 sellerísstangir
- 700 ml vatn
- 100 ml rauðvín
- 75 ml rjómi
- sósuþykkni
- salt og pipar
Meðlætið
- 1 sæt kartalfa
- 200 g cheddarostur
- 3 hvítlauksrif
- nokkrar matskeiðar jómfrúarolía
- salt og pipar
Aðferð:
- Skerið laukinn í þunnar sneiðar. Steikið hann upp úr smjöri í 30-45 mínútur þangað til að hann er lungamjúkur. Það tekur langan tíma að fá sætuna út úr lauknum.
- Þegar laukurinn er mjúkur hellið þið balsamediki saman við og látið sjóða upp. Setjið svo hlynsíróp saman við og blandið vandlega saman. Soðið þangað til að allur vökvi er horfinn.
- Ég notaði síðan hvítmygluost til að bragðbæta lambið. Það er ágætt að leggja kryddblöndu eins og Yfir holt og heiðar í grunninn - en hvaða kryddblanda myndi lyfta lambinu upp.
- Nuddið lambið upp úr jómrfrúarolíu, leggið svo laukinn ofan á, svo ostinn, nóg af salti og pipar.
- Vefjið svo lambinu upp og bindið með streng.
- Bakið í ofni við 130 gráður ofan á beði af gulrótum, sellerí og lauk í um 3 tíma undir álpappír.
- Á meðan fáið þið liðlegan heimilsmann til að raspa eina stóra sæta kartöflu í skál.
- Blandið sætu kartöfluna saman við þrjú hvítlauksrif og 200 g af niðurrifnum cheddar osti.
- Blandið ostinum, hvítlauknum og rifnum kartöflunum vel saman og mótið í fallega hrauka á bökunarpappír og bakið við 180 gráður í 30-40 mínútur.
- Eftir að lambið kom úr ofninum var það saltað rækilega og svo var það klárað á grillinu í tvær mínútur á hvorri hlið.
- Sósan var einföld. Kraftur gerður úr beinum og mirepoix; gulrótum, sellerí lauk og hvítlauk og vatn. Soðið upp í tvær klukkustundir og svo síað.
- Bragðbætt með rauðvíni, krafti og rjóma. Þykkt með sósuþykkjara. Salt og pipar.
Hvítmygluosturinn kominn á sinn stað.
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
Kjötið er hnýtt saman.
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
Kartöflurnar líta girnilega út.
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson