Læknirinn galdraði fram girnilegan lax

Steiktur lax að hætti Ragnars bragðast eins og sælgæti.
Steiktur lax að hætti Ragnars bragðast eins og sælgæti. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Lax er í uppáhaldi hjá flestum enda algjört sælgæti. Ragnar Freyr Ingvarsson – betur þekktur sem læknirinn í eldhúsinu – galdraði fram þennan gómsæta lax sem hann segir að sé bæði einfaldur og góður. 

Ljúffengur steiktur lax á beði af byggotto með snöggpæklaðri agúrku

Fyrir fjóra til sex

  • 1 kg lax
  • salt og pipar
  • 50 g smjör
  • 300 g perlubygg frá Vallanesi
  • 1 rauður laukur
  • 1 sellerístöng
  • 100 g sveppir
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 hvítvínsglas
  • 150 ml rjómi
  • 25 g smjör
  • 1/2 agúrka
  • 2 msk. hvítvínsedik
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. sykur
  • safi úr hálfri sítrónu

Aðferð:

  1. Það er líklega heppilegast að byrja á því að undirbúa agúrkuna þar sem hún þarf um hálftíma til að verða tilbúin. Ég keypti svona "spiralizer" þegar ég var á ráðstefnu í Bandaríkjunum haustið 2016 og hefur tekist að klúðra þessu endurtekið á þessum 18 mánuðum. En þetta er að fara að takast. Alltént tók ég hálfa agúrku og skar niður í fallega borða.
  2. Þeim var svo velt upp úr hvítvínsediki, salti, sykri og svo auðvitað ferskum sítrónusafa. Látið standa við herbergishita á meðan maturinn er eldaður.
  3. Skerið rauðlaukinn, selleríið, sveppina og hvítlaukinn og steikið í um 25 g af smjöri þangað til að það er dásamlega mjúkt og ilmandi. Saltið og piprið.
  4. Sjóðið byggið samkvæmt leiðbeiningum í söltuðu vatni. Bætið svo bygginu saman við grænmetið og blandið vandlega saman.
  5. Hellið svo glasi af víni saman við – og látið það sjóða niður.
  6. Hellið svo rjómanum saman við – hrærið vandlega saman og látið rjómann sjóða niður.
  7. Gordon Ramsey segir að maður eigi að skera í laxinn til að hindra að hann dragist saman og verpist á pönnunni. Og svei mér þá – hann hefur ekki rétt fyrir sér – þessar þrjár Michelin-stjörnur voru ekki að ástæðulausu.
  8. Saltið og piprið laxinn og steikið svo í brúnuðu smjöri. Steikið fyrst með roðið niður þangað til að það er stökkt og snúið svo. Þegar fiskurinn er eldaður í gegn þarf ekkert annað að gera en að bera hann fram!
  9. Svo þarf bara að raða þessu upp. Fyrst byggottó – svo laxinn – síðan agúrkan og berið fram með sneið af sítrónu. Fullkomið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka