Spaghettí með brösuðum nautaskönkum

Þvílíkt girnilegur réttur hjá Karli Óskari.
Þvílíkt girnilegur réttur hjá Karli Óskari. Valgarður Gíslason

Fimm eða færri er áskorun þar sem matreiðslumenn landsins skora hver á annan og markmiðið er að gera eins einfaldan mat og kostur er. Kokkar eru hins vegar frægir fyrir hátt flækjustig þannig að áskorunin er alla jafna bráðfyndin þar sem mörgum reynist erfitt að halda sig innan marka. Hér getur að líta afrakstur Karls Óskars á Le Kock en þetta er nokkuð vel að verki staðið.

Spaghettí með brösuðum nautaskönkum

Fyrir 2-3
  • 2 sneiðar nautaskankar (einnig kallað Osso buco)
  • 2 stk. laukar
  • 2 stk. íslenskar gulrætur
  • 3 stk. hvítlauksgeirar
  • 250 ml tómatgrunnur
  • 200 ml gott rauðvín
  • 800 ml vatn
  • 2 stk. nautakraftsteningar
  • 50 ml ólífuolía
  • 1 hæfileg lúka af spaghettí
  • salt & svartur pipar

Aðferð: 

1. Byrjið á því að saxa grænmetið niður, það er smekksatriði hversu fínt það er skorið. Hitið olíu í eldföstum potti og stillið heimilisofninn á 150°C. Gott er að dusta kjötsneiðarnar með smá hveiti og svo þarf að brúna þær vel á góðum hita, þar til brún og stökk húð er komin á allar hliðar. Grænmetinu er bætt útí og hitinn lækkaður. Salti og pipar sáldrað yfir og látið krauma í 5-10 mínútur.

2. Hellið næst rauðvíni yfir og látið það malla niður um helming. Hellið vatni og tómatgrunni útí ásamt súputeningum og setjið lok yfir pottinn. Það er einnig mjög sterkur leikur að nota einhverskonar kjötsoð í staðinn fyrir vatn og sleppa teningunum. Stingið pottinum inn í ofninn og hafið hann þar í 5-6 tíma.

3. Þegar kjötið er tilbúið þarf að kippa leggbeinunum úr og rífa kjötið niður. Ef sósan er aðeins of þunn er lítið mál hafa pottinn yfir lágum hita til þess að sjóða hana aðeins niður. Smakkið þetta til með salti og pipar, einnig er alveg óhætt að leika sér og bæta ýmsum kryddum útí.

4. Spaghettí er soðið að hefðbundnum hætti þegar styttist í matartíma. Gott er að velta því upp úr ólífuolíu, grófu salti og nýmuldum pipar þegar það er tilbúið.

5. Þá er hægt að bera þetta fram, gott er að fínsaxa vorlauk og strá yfir diskinn og ennþá betra að rífa helling af parmesanosti yfir þetta allt saman.

Karl Óskar tók áskorun Matarvefsins að þessu sinni.
Karl Óskar tók áskorun Matarvefsins að þessu sinni. Valgarður Gíslason
Veitingastaðurinn Le Kock.
Veitingastaðurinn Le Kock. Valgarður Gíslason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka