Hélt rosalega veislu fyrir vini sína

Beikonvafinn skötuselur.
Beikonvafinn skötuselur. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Þegar góða gesti ber að garði er ekki annað í stöðunni en að bjóða upp á góða mat - sérstaklega ef maður hefur orð á sér að vera afbragðskokkur. 

Ragnar Freyr stóð sannarlega undir væntingum þegar hann reiddi fram þessa glæsilegu veislu fyrir vini sína og eru sjálfsagt margir sem hefuðu viljað snæða þessar dásemdir. 

Ítarlegri leiðbeiningar er hægt að finna inn á síðu Ragnars - Læknirinn í eldhúsinu. 

Fjórréttuð og fljótleg fiskiveisla fyrir vini frá Englandi - bláskel, silungur, humar og skötuselur og ljúffengir vínsopar 

  1. Bláskel í kókóssósu
  2. Reyktan og sítrónumarineraðan silung með chili og bláberjum
  3. Grillaðan humar með chili- og mangóraitu
  4. Parmavafinn skötusel með sætkartöflumús og grænbaunapúré
Bláskelin elduð.
Bláskelin elduð. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Bláskel í kókóssósu

  • 1 poki bláskel
  • 2 hvítlaukar
  • 5 cm engifer
  • jómfrúrolía
  • hvítvínslögg
  • 1 dós kókosmjólk
  • steinselja
  • dill
  • salt og pipar

 Við byrjuðum á bláskelinni sem var splunkuný - hafði verið pakkað deginum áður. 

Steikti rauðlauk, hvítlaukinn og engifer í jómfrúarolíu. Skellti svo einum poka af skolaðri bláskel saman við, smá skvettu af víni, svo eina dós af kókósmjólk. Sauð upp. Bragðbætti svo með steinselju, chili og salti og pipar. 

Skreytti með fersku kóríander og bar fram með baguettu til að ná upp sósunni. 

Reyti silungurinn fær sítrónusafa yfir sig.
Reyti silungurinn fær sítrónusafa yfir sig. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Reyktur og sítrónumarineraður silungur með chili og bláberjum

  • 150 g ferskur silungur
  • ½ sítróna
  • birkireyktur silungur
  • klettasalat
  • jómfrúarolía
  • rauður chili
  • bláber
  • steinselja 

Réttur númer tvö er einstaklega fljótlegur. Ég skar um 150 g af ferskum silungi niður í þunnar sneiðar og kreisti safa úr hálfri sítrónu yfir. Skar svo niður birkireyktan silung sem Gunni frændi gaf mér. Raðaði þessu ofan á beð af klettasalati vætt upp úr góðri jómfrúarolíu. Skreytti með rauðum chili, bláberjum og smátt skorinni steinselju. 

Réttur númer þrjú í röðinni var líka einkar fljótlegur. Snædís þræddi skelflettan humar upp á spjót sem hafði fengið að liggja í nokkrar mínútur í olíu, salti og pipar áður en hann var lagður á blússandi heitt grillið. Fékk rétt að kyssa logana.

Þá var humarinn lagður á beð af frissé salati, íslensku piccolotómötum, mislitum smápapríkum, smátt skornu mangó bragðbættu með jómfrúarolíu, sítrónusafa og salti og pipar. Ofan á var svo tyllt matskeið af chili-mangó sósu.

Hún var gerð þannig að 1/2 dl af majónesi, 1/2 dl af sýrðum rjóma var hrært saman og við það blandað 1/2 smátt skornu mangó, heilu kjarnhreinsuðu chili, salti og pipar og teskeið af hlynsírópi.

Ég skellti sætum kartöflum inn í ofn við 180 gráður í tvær klukkustundir. Skar svo ofan af þeim og setti í pott. Þeytti síðan 50 gr af smjöri og 50 gr af rjómaosti saman við. Saltaði og pipraði.

Svo sauð ég 200 g af frosnum grænum baunum í söltuðu vatni. Þær voru svo maukaðar með töfrasprota ásamt 30 gr af smjöri og rjómaosti, handfylli af ferskri steinselju. Saltað og piprað.

Ég vafði þvínæst 600 g af skötusel (hafði hreinsað himnuna af) með tveimur bréfum af parmaskinku. 

Skötuselurinn var svo brúnaður upp úr smjöri og svo bakaður í ofni þar til hann náði 48 gráðu kjarnhita.

Ég ætla að fullyrða að hann hafi heppnast fullkomlega. 

Skötuselnum var svo tyllt ofan á beð af sætkartöflumauki. Mér var aðeins strítt af því að bera fram tvennskonar maukað meðlæti. Svona er það þegar maður er að flýta sér - maður hugsar ekki málið í gegn. En bragðgott var það. 

Hvet ykkur til að prófa þessar uppskriftir. Einfaldar, fljótlegar - en fyrst og fremst stórkostlega ljúffengar. 

Humarinn grillaður.
Humarinn grillaður. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
Humarinn borinn fram.
Humarinn borinn fram. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert