Ekki verður annað séð en að það sé fullkominn dagur í dag til að elda gómsætt pasta og þá er ekki úr vegi að skella í þetta dásamlega sítrónupasta sem kemur úr smiðju engrar annarrar en Sophiu Loren - reyndar með krókaleiðum því það er meistari Berglind Guðmundsdóttir á Gulur, rauður, grænn og salt sem endurgerði réttinn.
Hvað er betra en sítróna, hvítlaukur og löðrandi rjómi?
Sítrónupasta Sophiu Loren
Fyrir 3-4
- 500 g ferskt spaghetti frá RANA
- 5-6 hvítlauksgeirar
- safi úr fjórum sítrónum plús börkur af einni sítrónu
- 1/2 l rjómi
- 1-2 msk Philadelphia rjómaostur
- handfylli af steinselja
- salt
- nýmalaður pipar
- fullt af parmesanosti!!
Aðferð:
- Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningu á pakkningu.
- Hitið olíu á pönnu og léttsteikið hvítlauk. Passið að hann brenni ekki.
- Bætið sítrónusafanum út og láta malla örlítið en ekki sjóða.
- Hellið rjómanum út í ásamt rjómaosti og láta malla.
- Bætið við parmesanosti og steinselju blanda vel saman.
- Hellið vatninu af pastanum og blandið skvettu af því því saman við sósuna.
- Berið fram strax og piprið hressilega.