Það er fátt jafnhressandi og gott kjúklingaspjót – hvað þá ef það er með dásamlega ferskri og bragðgóðri jógúrtdressingu.
Allir þeir sem eru komnir með vatn í munninn og farnir að láta sig dreyma um slíkt góðgæti geta formlega tekið gleði sína því hér að neðan er einmitt slíka uppskrift að finna.
Það er Linda Ben sem á þessa uppskrit og hún klikkar ekki frekar en fyrri daginn.
Kjúklingaspjót í jógúrt-marineringu:
- 8 stk. úrbeinuð kjúklingalæri
- 200 g grísk jógúrt frá Örnu
- 3 hvítlauksgeirar
- 1 tsk. paprikukrydd
- 1 klípa af saffran, mulið niður (um það bil ¼-½ tsk.)
- ½ tsk. túrmerik
- sítrónusafi úr ½ sítrónu
- ½ tsk. salt
- ½ tsk. pipar
- 3 paprikur
- 1 rauðlaukur
Grillaðir maísstönglar með fetaostmulningi:
- 4 maísstönglar
- 50 g smjör/smjörlíki við stofuhita
- 1 krukka fetaostur frá Örnu (taka það mesta af olíunni frá)
- Ferskur kóríander
- Salt og pipar
Aðferð:
- Byrjað er á því að kveikja á grillinu og koma upp góðum hita á því.
- Blandið saman í stóra skál grísku jógúrtinni, öllum kryddunum og sítrónusafanum.
- Skerið lærin í tvennt og bætið þeim ofan í marineringuna, látið marineringuna þekja öll lærin og leyfið að marinerast í allt frá 30 mín. og allt að sólahring inn í ísskáp, því lengur því betra.
- Skerið paprikurnar og rauðlaukinn í bita, þræðið upp á spjótin fyrst einum lærisbita, næst papriku og svo rauðlauk, endurtakið aftur.
- Setjið maísinn beint á grillið í laufunum og grillið í um það bil 20 mín., en snúið þeim á 5 mín. fresti.
- Grillið kjúklingaspjótin í um það bil 20-25 mín. og snúið einnig á 5 mín. fresti.
- Á meðan maísinn er á grillinu, blandið mjúku smjöri/smjörlíki og fetaostinum saman, munið að hella af mestu olíunni fyrst af fetaostinum (ekki henda henni samt því hún er frábær í alls kyns matargerð!).
- Takið maísinn og kjúlingaspjótin af grillinu þegar þau eru tilbúin. Hreinsið laufin og þræðina af maísnum og smyrjið hann með fetaostmulningnum, rífið nokkur kóríanderlauf yfir og kryddið með salti og pipar.
Maísstönglarnir tilbúnir á grillið.
mbl.is/Linda Ben