Lilja Katrín og Eurovision-snarlið

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lilja Katrín Gunnarsdóttir er einn mesti Eurovision-aðdáandi sem sögur fara af. Við vitum að hún er alltaf að bralla eitthvað sniðugt fyrir keppnina og því lék okkur forvitini á að vita hvað til stæði og hvernig undirbúningur fyrir keppnina færi fram á hennar heimili.

„Ég er rosalega mikill Eurovision-aðdáandi og hefur það bara stigmagnast með árunum. Núna er ég komin á það stig að horfa á framlög hvers lands um leið og þau lenda á netinu og er því komin með uppáhaldslag löngu áður en venjulegt fólk fattar að það er að fara að koma Eurovision.

Ég á nokkur uppáhaldslög í keppninni í ár, sem sem betur fer komust öll áfram í úrslit, þannig að mig langaði að heiðra þau og senda þeim styrk með því að hafa fjölþjóðlegt Eurovision-partí með réttum frá öllum þessum löndum. En þar sem ég hef ekki heimsótt öll þessi lönd þá var internetið besti vinur minn og er ég búin að liggja yfir ýmsum uppskriftum dægrin löng, með tilheyrandi munnvatnsleka og hungurverkjum.

Ég er hins vegar svo vel stödd að ég á „vini“ alls staðar í heimnum þar sem ég og maðurinn minn rekum ferðasíðuna Must See in Iceland og höfum verið að skiptast á nammi við fólk allt frá Ástralíu til Rúmeníu, frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum til Sviss. Þannig að ég á hauka í horni út um allt og gat því fengið góð ráð frá nammigrísunum mínum.

Og þess má geta að á myndinni er ég í sérsaumuðum ABBA-kjól sem ég saumaði fyrir Eurovision árið 2016, þegar ég og besta vinkona mín, Íris Dögg Pétursdóttir, fórum á Eurovision í fyrsta sinn á ævinni. Auðvitað þurftum við að fara í búning!“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lamingtons - ÁSTRALÍA

Lag í Eurovision: We Got Love - Jessica Mauboy

Ástralía er draumalandið mitt og ákvað ég að gera það sem ég geri best, að baka, fyrir Ástralana mína. Hér er á ferð frekar þekkt og klassískt bakkelsi, sem lítur út eins og skúffukaka en bragðast eins og himnaríki.

Kaka - hráefni:

  • 125 g mjúkt smjör
  • 1 bolli smjör
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 3 egg
  • 1 3/4 bolli hveiti (sigtað)
  • 1/2 bolli mjólk

Krem - hráefni:

  • 3 1/2 bolli flórsykur
  • 1/4 bolli kakó
  • 1 msk. mjúkt smjör
  • 1/2 bolli sjóðandi heitt vatn
  • 2 bollar kókosmjöl

Kaka - aðferð:

Hitið ofninn í 180°C og takið fram form sem er sirka 30 sentímetra langt. Klæðið það með smjörpappír þannig að hann nái aðeins upp á hliðarnar. Þessa er auðvitað líka hægt að gera í ofnskúffu en þá þarf að tvöfalda uppskriftina.

Hrærið smjör og sykur vel saman og bætið síðan vanilludropunum út í. Bætið eggjunum saman við, einu í einu. Blandið helmingnum af hveitinu saman við og hrærið, síðan helmingnum að mjólkinni og því næst restinni af hveitinu og mjólkinni. Hrærið þar til allt er vel blandað saman.

Hellilð deiginu í formið og passið að það nái út í alla kanta. Bakið í um hálftíma. Leyfið kökunni að kólna í forminu í sirka korter og skellið henni síðan á ílangan disk. Hyljið hana með viskastykki og leyfið henni að standa yfir nótt. Skerið kökuna síðan í litla bita.

Krem - aðferð:

Blandið öllu saman nema kókosmjölinu og hrærið vel saman. Stingið hníf í bita af kökunni og dýfið ofan í kremið. Drissið síðan kókosmjölinu yfir og setjið kökubitann á smjörpappírsklæddan bakka. Endurtakið með alla bitana og leyfið kreminu að storkna áður en þið gúffið í ykkur.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Karelísk baka - FINNLAND

Lag: Monsters - Saara Aalto

Ég eyddi einu sinni þremur vikum á ferðalagi um Finnland með finnskri vinkonu minni, og fékk því ekki aðeins að heimsækja fullt af áhugaverðum stöðum í Finnlandi heldur líka að smakka ekta finnskan mat. Mér fannst hann reyndar ekkert spes, nema salmíakkið sem ég át yfir mig af, en þessi baka fangaði hjarta mitt.

Fylling - hráefni:

  • 2 bollar vatn
  • 1 bolli brún hrísgrjón (má nota hvít)
  • 2 bollar mjólk
  • salt eftir smekk

Smjörblanda - hráefni:

  • 100 g smjör (brætt)
  • 3 msk. nýmjólk

Botn - hráefni:

  • 1/2 bolli vatn
  • 1 tsk. salt
  • 1 bolli rúgmjöl
  • 1/4 bolli hveiti

Eggjasmjör - hráefni:

  • 100 g mjúkt smjör
  • 2 harðsoðin egg (söxuð)
  • smá pipar eftir smekk (má sleppa)

Fylling - aðferð:

Setjið vatn og hrísgrjón í pott og náið upp suðu. Setjið lok á pottinn og látið malla yfir lágum hita í 20 mínútur. Hrærið við og við í blöndunni.

Bætið mjólk og salti saman við og leyfið þessu að malla þar til hrísgrjónin eru búin að taka í sig alla mjólkina og blandan er dásamlega krímí.

Smjörblanda - hráefni:

Blandið smjöri og mjólk vel saman og setjið til hliðar.

Botn - aðferð:

Hitið ofninn í 230°C og setjið smjörpappír á ofnplötur. Blandið öllum hráefnum saman og hnoðið þar til deigið er orðið þétt í sér.

Skiptið deiginu í 8 til 10 hluta og fletjið hvern hluta út í sporöskjulaga hring. Setjið 2-3 matskeiðar af fyllingu í miðjuna á hverjum hring og krumpið síðan hliðarnar inn á fyllinguna, þannig að það sjáist vel í hana í miðjunni.

Penslið deigið með smjörblöndunni og setjið inn í ofn. Bakið í um 12-15 mínútur. Takið plötuna út eftir sirka sex mínútur og penslið aftur. Þegar bökunartíminn er liðinn takið þið plötuna úr ofninum og penslið botninn aftur með smjörblöndunni. Leyfið þessu að kólna lítið eitt áður en þetta er borið fram, en þetta er best að mínu mati við stofuhita.

Eggjasmjör - aðferð:

Ég steingleymdi að láta mynda smjörið sem fylgir með en það er algjörlega ómissandi!

Þeytið smjörið í 3-5 mínútur. Blandið síðan eggjunum saman við og pipar.

mbl.is/Kristinn Magnússon


Sænskar kjötbollur - SVÍÞJÓÐ (DUH!)

Lag: Dance You Off - Benjamin Ingrosso

Mín yndislegi Eurovision-sálufélagi, fyrrnefnd Íris Dögg, á heima í Svíþjóð og því höldum við á þessu heimili alltaf með Svíþjóð svo við höfum afsökun til að koma í heimsókn. Og hvað er sænskara en kjötbollur? Nei, ég bara spyr! Og nota bene, þessa uppskrift er ekkert mál að stækka!

Kjötbollur - hráefni:

  • 500 g hakk
  • 1/4 bolli brauðrasp
  • 1 msk. steinselja (söxuð)
  • 1/4 tsk. negull
  • 1/4 laukur (fínsaxaður)
  • 1 hvítlauksgeiri (fínsaxaður)
  • 1/2 tsk. pipar
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. reykt paprikukrydd
  • 1 egg
  • 1 msk. ólífuolía

Sósa - hráefni:

  • 2 msk. smjör
  • 3 msk. hveiti
  • 2 bollar nauta- eða kjúklingasoð
  • 1 bolli rjómi
  • 1 msk. Worcestershire-sósa
  • 1 tsk. hunangssinnep
  • salt og pipar eftir smekk

Kjötbollur - hráefni:

Blandið öllum hráefnum vel saman í skál. Búið síðan til litlar bollur úr blöndunni. Takið fram stóra pönnu og bræðið 1-2 matskeiðar af smjöri á henni. Steikið síðan bollurnar yfir meðalhita þar til þær eru tilbúnar. Setjið bollurnar á disk eða í skál og búið til sósuna.

Sósa - hráefni:

Ekki þrífa bollupönnuna og bræðið smjörið á henni. Blandið síðan hveiti saman við og þeytið vel saman.

Hellið soðinu varlega saman við og þeytið allan tímann. Hellið síðan rjómanum, Worcestershire-sósunni og sinnepinu saman við og þeytið vel. Saltið og piprið.

Leyfið sósunni að malla þar til hún byrjar að þykkna. Dembið síðan bollunum ofan í sósuna og leyfið þessu að malla í nokkrar mínútur.

mbl.is/Kristinn Magnússon


Kjúklingavefja - ÍSRAEL

Lag: TOY - Netta

Þessi réttur er kannski ekki týpískt ísraelskur, meira svona innblásinn af Mið-Austurlöndum og svo er brauðið í vefjunni grískt út í gegn. En gott er þetta. Er það ekki það sem skiptir máli?

Kjúklingur - hráefni:

  • 600 g kjúklingafillet
  • 1 bolli grísk jógúrt
  • 1/4 bolli edik
  • 2 hvítlauksgeirar (fínt saxaðir)
  • 1 tsk. pipar
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. kardimommur
  • 1 tsk. chili-krydd
  • 2 msk. sítrónusafi
  • 1/4 tsk. negull

 Sósa - hráefni:

  • 1 bolli tahini
  • 2 hvítlauksgeirar (fínt saxaðir)
  • 1/4 bolli sítrónusafi
  • 4-6 msk. grísk jógúrt

Brauð - hráefni:

  • 2 1/2 bolli hveiti
  • 2 tsk. þurrger
  • 1 tsk. púðursykur
  • 1 tsk. salt
  • 1 msk. ólífuolía
  • 3/4 bolli mjólk
  • 1/4 bolli vatn

 Kjúklingur - aðferð:

Hrærið öllu saman nema kjúklingnum í stórri skál. Dembið kjúklingnum saman við og leyfið þessu að marinerast í 6-8 klukkutíma, helst yfir nótt.

Steikið síðan kjúklinginn á pönnu og setjið til hliðar.

Sósa - hráefni:

Blandið öllum hráefnunum vel saman og setjið til hliðar. Ég verð að taka fram að ég elska tahini en fyrir þá sem eru ekki hrifnir af því er hægt að nota hvaða sósu sem er, til dæmis jógúrtsósu eða chili-sósu.

Brauð - aðferð:

Hitið mjólkina og vatnið lítið eitt. Við viljum hafa blönduna volga, ekki brennandi heita. Blandið geri, salti og púðursykri saman við og leyfið þessu að standa í 5-10 mínútur.

Blandið síðan hveiti og ólífuolíu saman við og hnoðið þar til deigið er orðið flott, það má vera pínulítið klístrað. Setjið viskastykki yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í um klukkustund.

Penslið pönnu með ólífuolíu og hitið yfir háum hita. Skiptið deiginu í 8-10 parta og fletjið hring út úr hverjum parti. Skellið hverri köku á pönnuna þegar hún er orðin heit og steikið í um 2-3 mínútur á hvorri hlið.

Smyrjið kökurnar síðan með sósuni, fyllið með uppáhaldsgrænmetinu ykkar og kjúklingnum góða.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Patatas bravas og heimagert snakk - SPÁNN

Lag: Tu canción - Amaia og Alfred

Ég bjó á Spáni í smá tíma þegar ég var nítján ára og var svo heppin að búa með frábæru fólki sem kenndi mér alls kyns sniðugt í eldhúsinu. Mér þykir ofboðslega vænt um Spán og elska að heyra sungið á spænsku þannig að það er mikill plús að spænska Eurovision-lagið er svona fallegt.

Patatas bravas (steiktar kartöflur) - hráefni:

  • 1 kg kartöflur
  • Ólífuolía og nóg af henni
  • 2-3 hvítlauksgeirar (smátt saxaðir)
  • salt og pipar

Aðferð:

Skerið kartöflurnar í báta. Takið til stóra pönnu og setjið rúmlega botnfylli af ólífuolíu í hana. Hitið olíuna yfir meðalhita. Skellið síðan kartöflubátunum í pönnuna og steikið í 20-30 mínútur og hrærið reglulega í þeim.

Á meðan kartöflurnar eru að steikjast hitið þið ofninn í 150°C. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar setjið þið þær í eldfast mót og inn í ofn í aðrar 20 mínútur. Þessar klikka ekki og dásamlegt að bera þær fram með sýrðum rjóma eða sterkri mæjónesu.

Heimagert snakk

Hér er á ferð mjög einfalt snakk sem felst í því að steikja tortilla-pönnukökur. Þær er að sjálfsögðu hægt að kaupa út í búð en ég geri mínar eigin og hér er uppskriftin.

Hráefni:

  • 3 bollar hveiti
  • 1 bolli heitt vatn
  • 4 1/2 msk. grænmetisolía + meira til að steikja snakkið upp úr
  • sjávarsalt

Aðferð:

Blandið öllum hráefnunum vel saman þar til deigið er orðið dásamlegt og fallegt. Leyfið því að hvíla í tíu mínútur.

Setjið nokkra dropa af olíu á pönnu og hitið yfir háum hita. Takið smá klípu af deiginu og fletjið út í hringlaga köku. Deigið er frekar teygjanlegt þannig að ég leik mér líka með það í höndunum og teygi það aðeins til. Við viljum að kökurnar séu frekar þunnar.

Þegar pannan er orðin mjög heit, er kökunni skellt á og smá sjávarsalti stráð yfir hana. Kakan er síðan bökuð í um mínútu. Síðan er henni snúið við og hún bökuð í um mínútu í viðbót. Mér finnst best að nota töng til að snúa kökunum við. Svona er þetta gert koll af kolli þar til deigið er búið.

Takið ykkur síðan pítsahníf í hönd og skerið hverja köku í átta þríhyrninga. Setjið botnfylli af olíu í heita pönnuna og steikið hvern þríhyrning, aðeins um það bil 30 sekúndur á hvorri hlið. Leggið snakkið síðan á eldhúspappír til að ná úr mestri olíunni. Þetta snakk elska ég með gaucamole en ég á mjög erfitt að gefa uppskrift að hinu fullkomna lárperumauki. Ástæðan er einfaldlega að ég nota bara það sem ég á til, stundum er það jalapeno, eða hvítlaukur, eða papríka. En auðvitað alltaf avocado!

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert