Vanillukaka fyrir veisluna

Ótrúlega hugguleg kaka sem allir ættu að ráða við að …
Ótrúlega hugguleg kaka sem allir ættu að ráða við að gera. mbl.is/Berglind Hreiðars

Undirrituð veit fátt skemmtilegra en að dást að fallegu kökunum hennar Berglindar Hreiðars á Gotteri og gersemar enda er hún afburðarflink – svo ekki sé fastar að orðið kveðið. 

Ég viðurkenni fúslega að ég er með töluvert "naked cake"-blæti en fyrir þá sem eru ekki alveg með tungutakið á hreinu eru slíkar kökur þannig að það sést í kökuna sjálfa, það er að segja kakan er ekki fullhjúpuð með kremi. 

Þessi skreytingaraðferð er vinsæl og kemur skemmtilega út eins og sést hér hjá Berglindi sem er með einfalda vanilluköku skreytta á þann hátt. Margur gæti haldið að það væri ekki jafnsparilegt og hefðbundinn smjörkrems- eða sykurmassahjúpur en ég er alveg á því að allar þessar útgáfur eru jafngjaldgengar í hvaða veislu sem er. 

Berglind skreytir hér með makkarónum og ferskum blómum og minnir lesendur á að setja plast á endann á blómunum áður en þeim er stungið í kökuna. 

Athugið að þeir sem hafa áhuga á að læra réttu handtökin þá er Berglind með námskeið á næstunni. Undirrituð fór á eitt slíkt og leyfir sér að fullyrða að lífið sé töluvert betra á eftir. 

Einstaklega sparileg og fögur kaka.
Einstaklega sparileg og fögur kaka. mbl.is/Berglind Hreiðars

Kaka

  • 1 x Betty Crocker vanillumix

Aðferð:

  1. Blandið kökumixinu samkvæmt leiðbeiningum á pakka og skiptið í 3 x 15 cm stór kökuform og kælið botnana.
  2. Skerið ofan af hverjum botni það sem þarf til þess að þeir verði vel sléttir og staflist betur.

Krem

  • 125 gr. smjör (við stofuhita)
  • 400 gr. flórsykur
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 2 msk. síróp (pönnukökusíróp)

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur í hrærivélarskálina og hrærið vel saman. Bætið þá flórsykri saman við í litlum skömmtum, skafið niður á milli og hrærið þar til slétt og fallegt.
  2. Smyrjið góðu lagi af kremi á milli botnanna (2 lög) og þunnu lagi á toppinn til að binda alla kökumylsnu þar.

Skreyting

  • 1 dós Betty Crocker Vanilla Frosting
  • 125 gr. flórsykur
  • Fersk blóm og makkarónur

Aðferð:

  1. Blandið saman Betty frosting og flórsykri.
  2. Smyrjið þunnu lagi utan um alla kökuna og yfir vanillukremið á toppnum. Þið viljið fá þekjandi og fallega áferð á toppinn en skafa vel af hliðunum svo það sjáist í hliðarnar á kökunni.
  3. Klippið blóm til, plastið endana og stingið í kökuna ásamt makkarónum.
Kakan fer sérlega vel á fæti.
Kakan fer sérlega vel á fæti. mbl.is/Berglind Hreiðars
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert