Ofur-múslí einkaþjálfarans

mbl.is/Anna Eiríks

Anna Eiríks veit meira en margur um hvað er hollt og gott fyrir okkur þannig að við getum gæðavottað þessa uppskrift og sett hana í flokkinn sem má borða. Múslí getur nefnilega innihaldið óhóflegt magn af sykri en ekki þessi dásemd. 

Sjálf segir Anna að sér þyki múslí svo gott. Það sé svo hollt og trefjaríkt – þá ekki síst þegar maður gerir það sjálfur. „Mér finnst múslí frábært út á alls konar þeytinga sem ég geri sjálf eða gríska jógúrt með berjum. Ef mig langar í rúsínur, hnetur, þurrkaða ávexti eða kókosflögur út í það þá bæti ég því við eftir á. Til þess að gera það stökkt þarf að baka það í ofni í 15 mínútur en það er líka mjög gott óbakað og í rauninni enn þá hollara því þá sleppir maður hunanginu og sírópinu, þá er það frekar svona hefðbundið múslí en ekki stökkt.“

Heimasíða Önnu Eiríks má nálgast hér

Brakandi gott múslí

  • 2 bollar tröllahafrar
  • 1 bolli fræblanda frá Himneskri hollustu eða þau fræ sem þú átt til
  • 1/2 bolli quinoa-flögur (má sleppa)
  • 1/4 bolli akasíu-hunang
  • 1/4 bolli hlynsíróp

Aðferð:

Blanda öllu saman í skál, dreifa á bökunarpappír og baka í u.þ.b. 15 mín. við 180° hita til að fá það stökkt. Geymist best í glerkrukku með loki.

Anna Eiríksdóttir.
Anna Eiríksdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert