Grillaður þorskur með granateplasalsa og hvítlaukssósu

mbl.is/Júlía Magnúsdóttir

Ferskur fiskur er eina vitið á degi sem þessum þar sem við gírum okkur upp fyrir komandi viku og missum ekki vonina um veðurblíðu þó að spáin sé hreint út sagt arfaslæm. 

Það er meistari Júlía Magnúsdóttir, heilsumarkþjálfi hjá Lifðu til fulls, sem á þessa uppskrift en hún matreiddi þennan rétt í matarboði á dögunum og var svo ánægð með útkomuna að við urðum að birta þessa uppskrift til að gleðja lesndur vora!

Grillaður þorskur með granateplasalsa og hvítlaukssósu

  • 1 kúrbítur, skorinn langsum
  • salt og pipar
  • olía
  • 1 þorskflak (ca. 600 gr.)

Marinering á fiskinn

  • handfylli fersk steinselja
  • steinseljukrydd
  • smá laukduft
  • örlítið ferskt chilli (einnig má nota chilli-krydd)
  • salt og pipar eftir smekk
  • 1-2 msk. ólífuolía (fer eftir stærð á fiski)

Granateplasalsa

  • 1 bolli ferskir kirsuberjatómatar
  • ½ bolli granatepli
  • ¼ rauðlaukur, fínt saxaður
  • ½ lime, kreist
  • handfylli fersk steinselja (ca. ¼ bolli)

Einföld hvítlauks-grillsósa

  • 4 msk. vegan majónes
  • 1 msk. sítrónusafi
  • handfylli ferskur vorlaukur eða graslaukur, smátt saxaður
  • 1 tsk. hlynsíróp eða hunang (einnig má nota steviu)
  • 1 hvítlauksrif, pressað, eða hvítlauksduft
  • 8 klípur svartur pipar (eða meira eftir smekk)
  • salt eftir smekk

AÐFERÐ:

1. Hitið grillið.

2. Skerið kúrbít langsum með ostaskera og raðið á disk. Kúrbíturinn ætti að vera hæfilega þykkur enda ef hann er of þunnur er erfiðara að grilla hann.  Penslið kúrbítinn og kryddið með salti og pipar.

3. Útbúið næst marineringu fyrir fiskinn með því að hræra öllu saman í skál. Leggið þorskflakið á grillbakka eða á álpappír og penslið fiskinn með kryddolíunni.

4. Nú má grilla fiskinn og kúrbítsneiðarnar. Raðið kúrbítsneiðum á grillið, þær taka ca. 2 mín. á hvorri hlið en fer eftir hitastigi á grilli. Grillið fiskinn í 10-15 mín. eða þar til hann er eldaður í gegn.

5. Á meðan má undirbúa granateplasalsa. Opnið granatepli og fjarlægið kjarnana til að nota í salsað. Skerið kirsuberjatómata gróflega, saxið rauðlaukinn og steinseljuna og sameinið í skál. Kreistið lime-safa yfir og kryddið með chilli, salti og pipar eftir smekk.

6. Setjið þá hráefni hvítlauksgrillsósunnar í skál og hrærið saman með gafli.

7. Berið fram með fersku salati og njótið.

mbl.is/Júlía Magnúsdóttir
mbl.is/Júlía Magnúsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka