Rigningarpasta með rjómaosti

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Gott pasta gerir allt betra og hér gefur að lita uppskrift sem er algjörlega upp á tíu. Skyldi engan undra enda enginn aukvisi sem á heiðurinn að því. 

Hér gefur að líta það sem okkar eini sanni Ragnar Freyr Ingvarsson, betur þekktur sem Læknirinn í eldhúsinu, kallar rigningarpasta. Það þykir okkur ákaflega viðeigandi og okkur grunar að það eigi ófáir eftir að fá sér þennan ljúffenga pastarétt þegar líða fer á vikuna. 

Rigningardagar í Reykjavík: Lambapasta með rjómaosti, spergilkáli og ristuðum valhnetum

Hráefnalisti, fyrir fimm

  • 400 g lambalærissneiðar
  • 250 g íslenskir Flúðasveppir
  • 250 g spergilkál
  • einn rauðlaukur
  • 4 hvítlauksrif
  • nokkrar greinar timjan
  • 1 msk fersk bergmynta (oreganó)
  • 1 lambateningur
  • 250 ml vatn
  • 1 glas gott rauðvín
  • 250 ml rjómi
  • 4 msk rjómaostur
  • handfylli valhnetur
  • parmaostur að vild - helst mikið af honum
  • 50 g smjör
  • 2-3 msk jómfrúarolía
  • Salt og pipar
  • 400 g ferskt pasta
  • 3 msk jómfrúarolía
  • salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera sveppina, laukinn og hvítlaukinn og mýkið á heitri pönnu í bráðnu smjöri. Saltið og piprið og blandið timjan og bergmyntu saman við. Steikið þangað til að eldhúsið ilmar dásamlega.
  2. Skerið lærissneiðarnar í litla bita og brúnið á pönnunni. Setjið sveppina og laukinn til hliðar - ekki er óvitlaust að láta þá steikjast áfram á pönnunni á meðan þið brúnið kjötið. Gætið þess að setja ekki of mikið af kjöti í einu - annars er hætta á því að þið sjóðið kjötið frekar en að steikja það.
  3. Setjið svo sem nemur einu vínglasi af ljúffengu víni á pönnuna. Sjóðið það upp og látið það svo sjóða niður um helming áður en vatninu og lambateningnum er bætt saman við. Sjóðið upp og sjóðið niður um helming. 
  4. Þá er komið að því að þykkja sósuna. Það er auðvelt með nokkrum matskeiðum af rjómaosti. 
  5. Og svo rjóma auðvitað. Sjóðið hann einnig upp og síðan niður þangað til að sósan verði þykk og girnileg. 
  6. Ekki gleyma að salta og pipra - og smakka sósuna til. 
  7. Ristið hneturnar á þurri pönnu og saxið svo gróflega niður.
  8. Sjóðið pasta í miklu af vel söltu vatni. Ég notaði ferskt pasta.
  9. Ég sauð pastað þangað til að það var "al dente" eða aðeins undir tönn og bætti því svo á pönnuna og hrærði það varlega saman við svo að það væri allt vel hjúpað sósunni. Skreytti með steinselju. Ferskt basil hefði líka verið dásamlegt.
  10. Raspaði svo ríkulegt magn af parmaosti yfir áður en rétturinn var borinn fram þannig að osturinn náði að bráðna ofan í pastað.
  11. Hvað sem öllu líður var þetta réttur sem allir í fjölskyldunni gátu snætt með bestu lyst. Ekki skrítið þar sem hráefnin voru öll eins og best verður á kosið. 
  12. Verði ykkur að góðu! 
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert