Íris Pétursdóttir ljósmyndari með meiru er mikill snillingur í eldhúsinu og er alveg sérstaklega lunkin við að gera uppskriftir fyrir börn. Ekki spillir fyrir þegar um er ræða bráðsniðugar og hollar lummur eins og þessar sem henta allri fjölskyldunni.
Sjálf segir Íris að lummurnar séu ótrúlega einfaldar, gómsætar og hollar. Þær séu tilvaldar í nestisboxið, sem millimál eða þegar komið er heim úr tómstundum eða skóla.
Heimasíðu Írisar - Infantia.is - er hægt að nálgast HÉR.
Barnalummur sem eru líka fyrir fullorðna
Bananinn er stappaður vel, hrært saman við eggið og haframjölið og svo er sett “dash” af kanil, algjört smekksatriði hversu mikið. Steikt á smurðri pönnu (kókosolía, smjör) við meðalhita þar til lumman er föst í sér og svo snúið við og steikt á hinni hliðinni í smá stund. Passlegt að gera t.d. 3 litlar lummur í einu á lítilli pönnu á stærð við pönnukökupönnu, þessu má líka skella í vel smurt vöfflujárn, ég geri það stundum.
Mér finnst persónulega best að borða lummurnar volgar með smjöri og osti, en það má auðvitað setja á þær hvaða álegg sem er. Þær sem verða afgangs geymi ég í endurnýtanlegum plastpoka eða plast íláti, þær má vel borða kaldar en með því að skella þeim í brauðristina í skamma stund verða þær alveg eins og nýjar, volgar og fínar.
Þessar eru í sérlegu uppáhaldi hjá þeim yngsta á okkar heimili sem sporðrennir þeim eins og ekkert sé, helst með engu….og í þokkabót kallar hann þær kjöt (held að útlitið minni hann á steikt buff eða hamborgarakjöt).
Hugmyndin af uppskriftinni er í raun sprottin frá uppskriftinni hér að neðan sem ég sá upphaflega snappinu hennar Unnar einkaþjálfara www.unnurola.is og fékk ég leyfi frá henni til að birt hana hér. Ég geri uppskriftina hennar mjög oft handa sjálfri mér og öðrum á heimilinu. En vegna þess hve yngsti stubburinn minn er hrifinn af þessu og vill borða út í eitt þá lagaði ég hana aðeins til þannig að hún henti ungum börnum betur og er það uppskriftin hér að ofan, en upprunalega útgáfan er full próeteinrík fyrir þau yngstu, amk eins og minn sem borðar þetta daglega og nánast alfarið í staðinn fyrir brauð.
Prótein ríkari útgáfan hennar Unnar er hér og ég hvet ykkur eindregið til að prófa!
Gert á sama hátt og hér að ofan nema þessa steiki ég í heilu lagi, passar fullkomlega á pönnukökupönnu, smyr með kókosolíu og steiki á miðlungshita í ca 5-6 mín eða þar til lumman er föst í sér, sný við og steiki á hinni hliðinni í uþb 2 mínútur. Það má líka alveg bæta við rúsínum til að fá meiri sætu og þær smakkast frábærlega með hnetusmjöri.
Báðar uppskriftir geymast í 2 daga í vel lokuðu íláti í ísskáp, en þó mjög ólíklegt að til þess komi, svo ljúffengar eru þær.