Það er fátt sem jafnast á við vel heppnað nachos og þegar það er Eva Laufey sem á heiðurinn að uppskriftinni þá má gulltryggja gæðin.
Eva segir að hér sé nóg af kjúklingi og osti og hvað þarf meira!?
Matarbloggið hennar Evu má nálgast HÉR.
Ofurnachos að hætti Evu Laufeyjar
- 1 poki tortilla-flögur með salti
- 1 kjúklingabringa, forelduð
- 120 g cheddar-ostur
- Tómatasalsa
- Lárperumauk
- Sýrður rjómi
- 1 rautt chili
- Handfylli kóríander
- 1 stilkur vorlaukur
- 1 límóna
Aðferð
- Útbúið tómatasalsa og lárperumauk samkvæmt uppskriftum hér að neðan.
- Rífið niður cheddar-ostinn og kjúklingabringuna. (Ég nota yfirleitt sous-vide kjúklingabringur sem fást tilbúnar í flestum matvöruverslunum. Ekki auglýsing! Einungis vinsamleg ábending).
- Stillið ofninn á grillstillingu.
- Setjið tortillaflögurnar í smelluform með lausum botni. (Athugið, þið getið líka notað eldfast mót).
- Sáldrið ostinum og kjúklingnum yfir, hrærið aðeins í þessu þannig að hráefnin blandist vel saman.
- Bakið í nokkrar mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og tortilla-flögurnar gullinbrúnar.
- Setjið formið á disk eða platta, losið um formið og dreifið örlítið úr snakkinu.
- Setjið tómatasalsa, lárperumauk og sýrðan rjóma yfir á nokkrum stöðum.
- Saxið niður kóríander, vorlauk og chili og skreytið að vild.
- Berið nachos-fjallið fram með límónubátum og njótið strax!
TÓMATASALSA
- 4 tómatar
- ½ laukur
- Handfylli kóríander
- 1 msk. ólífuolía
- Safinn úr hálfri límónu
- Salt
Aðferð:
- Skerið tómata, lauk og kóríander afar smátt og setjið í skál.
- Hellið ólífuolíu yfir, kreistið safann úr hálfri límónu yfir og kryddið með salti.
- Hrærið vel saman og geymið í kæli í nokkrar mínútur.
LÁRPERUMAUK
- 4 litlar lárperur eða 2 stórar
- ¼ rautt chili
- 2 msk. smátt saxað kóríander
- Safinn úr hálfri límónu
- 1 msk. ólífuolía
- Salt
Aðferð:
- Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota.
- Berið fram með nachos-fjallinu.