Fyrrverandi A-manneskjan Dóra Júlía ólst upp við veislukost, elskar nammi og ávexti og þykir almennt með þeim hressari í bransanum. Hún er gríðarlega vinsæll plötusnúður og stýrir karókíkvöldunum á Sæta Svíninu ásamt Þórunni Antoníu en þau hafa algjörlega slegið í gegn. En hvern grunaði að undir yfirborðinu leyndist humarelskandi, sósuslafrandi jógadrottning sem deilir hér með lesendum sínum uppáhalds allskonar...
Hvernig byrjar þú daginn? „Ég var alltaf mikil morgunmanneskja en er því miður orðin mikil B manneskja, sökum þess að ég vinn mikið á kvöldin og langt fram eftir og þarf þess vegna að sofa út til þess að ná almennilegum svefni. Þannig að ég byrja oftar en ekki daginn með því að rífa mig á lappir, grípa mér smoothie og bruna í hádegis hot yoga í Laugum! Annars finnst mér mjög gott að geta byrjað daginn á rólegum nótum, sérstaklega um helgar. Hitað mér te, skorið niður ávexti, hlustað á eitthvað næs og sest niður við tölvuna að vinna. Ég vinn sjálfstætt sem DJ og held utan um allt sjálf þannig að vinnutíminn er mjög sveigjanlegur sem mér finnst dásamlegt. Þá get ég líka unnið við ótrúlega næs aðstæður yfir daginn og svo oft við meira krefjandi aðstæður á kvöldin. Samt bæði ótrúlega skemmtilegt.“
Uppáhalds maturinn þinn? „Ég get borðað eiginlega allt og finnst ótrúlega gaman að smakka nýjan mat. Ég er mjög veik fyrir djúpsteiktu og ég held að humar tempura-ið á Sushi Social komist nálægt því að vera það besta sem ég fæ. Þegar ég var nýflutt inn í íbúðina mína held ég að ég hafi pantað take away frá þeim svona 4 x í viku. Var orðið alveg oggu vandræðalegt fyrir mig.“
Uppáhalds veitingahús? „Sushi Social og Sæta Svínið. Besti maturinn í bænum, 100%. Svo á ég nokkur uppáhalds veitingahús erlendis, Indochine í New York, Sketch í London og Gjelina í LA. Algjörir go-to staðir.“
Eldarðu mikið? „Nei, því miður þá geri ég það ekki, en ég er samt öll af vilja gerð að læra. Ég vinn mikið á kvöldin og hef þess vegna ekki mikinn tíma til þess að undirbúa kvöldverði. En ég eldaði til dæmis humar heima alveg sjálf um daginn sem heppnaðist mjög vel þó ég segi sjálf frá. Íbúðin mín lyktaði samt eins og hvítlaukur í svona 2 vikur eftir.“
Stærsta eldhúsklúðrið? „Þegar ég ætlaði einu sinni að vera mjög myndarleg og baka súkkulaðiköku. Setti hana svo óvart í ísform og inn í ofn þannig að formið bráðnaði útum allt í ofninum. Ekki alveg æt kaka þar.“
Ef þú værir að fara á eyðieyju og mættir taka með þér ótakmarkaðar birgðir af þremur fæðutegundum – hvað yrði fyrir valinu og af hverju? „Vá, ég veit það ekki alveg. Myndi allavega vilja taka ávexti, epli, bláber, banana og þurrkað mangó af því ég borða fáránlega mikið af því og finnst það svooo gott. Og grænmeti, grænkál, brokkolí, blómkál, gulrætur og sætar kartöflur. Eru grænmeti og ávextir ekki sama fæðutegund? Fisk því hann er bæði hollur og góður. Og fullt af sósum, því ég get ekki borðað mat án þess að hafa hann löðrandi í sósu.“
Hvað leggur þú áherslu á í mataræðinu? „Ég reyni að borða bæði hollt og gott, passa mig að borða reglulega og fjölbreytt. Ég er líka ekki með nein boð og bönn, þó að ég borði vissulega minna af einu en öðru, og reyni að leggja áherslu á góða næringu sem á sama tíma bragðast vel.“
Stærsta freistingin? „Nammi, því miður. Er að vona að það eldist af mér.“
Hvað ertu að spá í að bjóða upp á í næsta matarboði? „Held ég sé orðin þekkt fyrir það að bjóða upp á take away en það er aldrei að vita nema að ég fari nýjar leiðir. Litla systir mín er vegan og það gæti verið mjög skemmtilegt að læra að elda einhverja mjög góða vegan máltíð fyrir næsta frænkuboð.“
Fyrirmynd í eldhúsinu? „Pabbi minn. Eiginlega allt sem hann eldar er fáránlega gott. Sko á öðru leveli bara. Hann hefur ótrúlegan áhuga á matargerð og maturinn sem ég er alin upp við er ekkert slor. Þannig að ég ætti að vera duglegri að læra af honum. Hann er samt nú þegar búinn að kenna mér að gera humar og að búa til bernaise sósu.“
Hefur þú einhverja sérkennilega matardynti? „Nei, eiginlega ekki. Ég er samt lítið fyrir að borða blátt því einhversstaðar beit ég það í mig að það væri svo óhollt. Ef að ég kaupi mér m&m til dæmis þá skil ég alltaf bláu eftir. Og svo get ég ómögulega borðað sveppi, sem er svolítið leiðinlegt því ég veit að mörgum þykir þeir mjög góðir. Þegar ég var yngri bauð mamma mér einu sinni fimmþúsundkall ef ég gæti borðað einn svepp en ég kúgaðist bara.“
Er eitthvað sem þig dreymir um að „mastera“ í eldhúsinu? „Ekkert sem mér dettur í hug í fljótu bragði. Kannski fyrst að læra að elda almennilega áður en ég get farið að mastera það!“
Uppáhalds eldhúsáhald? „Það sem ég nota aðallega er hraðsuðuketill, blender og kaffivél. Ekki flóknara en það!“
Hvað dreymir þig um að eignast í eldhúsið? „Akkurat núna dreymir mig um bleikan hraðsuðuketil frá Smeg því hann er svo sætur!“