Ómótstæðilegur Dísudraumur með smá tvisti

mbl.is/María Gomez

Hver elskar ekki gömlu góðu hnallþóruna sem gengið hefur undir nanfinu Dísudraumur eða Draumkaka svo áratugum skiptir. Þessi kaka á sér mikilvægan sess í tertuvitund þjóðarinnar og María Gomez á Paz.is segir að þessi kaka hafi ávalt verið ein af hennar uppáhalds. Hér er hún samt með smá tvisti sem María segir að sé algör snilld. 

Uppáhaldskakan með óvæntu tvisti

  • Kvöldinu áður er bakaður svampbotn og marens.
  • Daginn sem setja á kökuna saman, þarf að gera kremið og þá er þeyttur 1 peli af rjóma um leið og kremið er gert.
  • Svo er að setja kökuna saman og þá er aftur þeyttur 1/2 líter af rjóma.
  • Trúið mér tertuna er ekki flókið að gera og ættu allir að geta gert hana ef þeir fylgja uppskriftinni og aðferðunum 100% eftir.

Í uppskriftina þarf:

Svampbotn

  • 2 egg
  • 70 g sykur
  • 30 g hveiti
  • 35 g kartöflumjöl

Aðferð

  1. Skerið niður í bita eina plötu af Pralín með karamellufyllingu og setjið til hliðar
  2. Eggin þeytt vel og sykri síðan bætt við
  3. Egg og sykur þeytt mjög vel þar til það er orðið ljóst og loftkennt þá er slökkt á hrærivélinni
  4. Hveiti og kartöflumjöl er svo sigtað saman út í skálina og Pralín sett með. Blandið varlega við deigið með sleif, passið að hræra ekki á fullu heldur blanda mjög varlega saman með sleifinni
  5. Deigið er svo sett í smurt tertuform. Ég notaðist við 21 cm form til að hafa kökuna hærri en oftast er notast við 26 cm hefðbundin form. Þið ráðið hvort þið viljið
  6. Bakið í 12-17 mínútur (byrjið á 12 mínútum). Fyrstu 5 mínúturnar er deigið bakað við 200°C en síðan við 185°C restina af tímanum.
  7. Stingið í miðjan botninn með prjón og ef ekkert kemur á prjóninn er botninn tilbúinn ef deig kemur á hann er gott að bæta við þessum 5 aukamínútum

Marens

  • 3 eggjahvítur
  • 150 g sykur

Aðferð

  1. Ég blanda alltaf öllu saman í Kitchen Aid hrærivélina og hræri eins og enginn sé morgundagurinn þar til blandan er orðin skjannahvít og ég get hvolft skálinni án þess að það detti úr henni.
  2. Hefðbundin aðferð er að stífþeyta eggjahvíturnar og sykri er bætt mjög varlega smátt og smátt við meðan vélin hrærir. Hjá mér hefur aðferð hér að ofan dugað mjög vel
  3. Ég klippi svo smjörpappa í hring og hef hann töluvert stærri en 21 cm formið. Hringinn set ég svo ofan í formið svo hann nái alveg upp á kantana og passa vel að pappinn fari vel í allar hverkarnar.
  4. Setjið svo marensblönduna út í formið með pappanum og bakið í 2 klst við 100 C°
  5. Slökkvið svo á ofninum og leyfið marensnum að vera í honum alla nóttina. Það er besta aðferðin við að ná fullkomnum marens.

Súkkulaðikrem

  • 3 eggjarauður
  • 4 msk flórsykur
  • 50 gr brætt súkkulaði (ég notaði 70 % og það var miklu betra, gaf kreminu djúpt og gott súkkulaðibragð)
  • 1 peli af rjóma

Aðferð

  1. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og leggjið til hliðar.
  2. Þeytið saman eggjarauðurnar og flórsykurinn þar til orðið ljóst og loftkennt.
  3. Hellið brædda súkkulaðinu smátt út á meðan þeytt er.
  4. Að lokum er svo slökkt á hrærivélinni og 1 peli af þeyttum rjóma er hrært ofurvarlega með sleif saman við.

Samsetning á kökunni

  1. Þeytið nú 1/2 líter af rjóma og setjið til hliðar.
  2. Setjið svampbotninn á kökudisk og látið hliðina þar sem sést mest í Pralín súkkulaðið snúa upp.
  3. Smyrjið nú helmingnum af þeytta rjómanum á svampbotninn næst er svo helmingurinn af súkkulaðikreminu sett á rjómann.
  4. Upp á súkkulaði kremið kemur svo marensinn.
  5. Á marensinn kemur svo restinn af þeytta rjómanum og á toppinn restinn af súkkulaðikreminu.
  6. Best er að bera tertuna fram 6-8 klst eftir samsetningu og enn betri er hún daginn eftir.
  7. Þessi terta er bara guðdómlega góð ég sver fyrir það. Þið sem hafið ekki smakkað hana verðið að prófa og þið hin sem elskið hana vitið hvað ég meina.
mbl.is/María Gomez
mbl.is/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert