Kjúklingapasta á kortéri

mbl.is/Eva Laufey

Á degi sem þessum er alveg glórulaust að ætla sér að eyða of miklum tíma í eldhúsinu. Við sláum samt ekkert af kröfunum og því er eina vitið að skella í þetta dásemdarkjúklingapasta sem tekur bara korter að gera. 

Það er Eva Laufey sem á þessa snilld en sjálf segir hún að það gerist mjög oft á hennar heimili að tíminn hlaupi frá henni og ekkert sé búið að hugsa út í kvöldmatinn. „Þess vegna er frábært að eiga uppskriftir sem eru þannig að það tekur enga og þá meina ég enga stund að útbúa. Það þarf nefnilega alls ekki að stökkva á eftir næsta skyndibita þar sem það getur verið fljótlegra að gera einfaldan rétt heima við.“

Matarbloggið hennar Evu Laufeyjar er hægt að nálgast HÉR.

Kjúklingapasta á korteri

fyrir fjóra

Hráefni:

  • 2 kjúklingabringur
  • 400 g penne heilhveitipasta
  • 1 msk. ólífuolía
  • Salt og pipar, magn eftir smekk
  • Skvetta af sítrónusafa
  • 1 hvítlauksrif
  • 1/2 kúrbítur
  • 10 – 12 kirsuberjatómatar
  • 1 skammtur basilíkupestó, uppskrift hér að neðan
  • Parmesan-ostur, magn eftir smekk

Aðferð:

  1. Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum í vel söltu vatni.
  2. Skerið kjúklinabringurnar í tvennt, kryddið með salti og pipar og steikið upp úr olíu í um það bil fimm mínútur á hvorri hlið. Kreistið hálfa sítrónu yfir og bætið einu hvítlauksrifi út á pönnuna í lokin.
  3. Skerið niður kúrbít og kirsuberjatómata í tvennt, bætið út á pönnuna og léttsteikið þar til grænmetið er mjúkt í gegn.
  4. Útbúið pestóið samkvæmt uppskrift og aðferð hér að neðan.
  5. Skerið kjúklinginn í litla bita, bætið pestóinu saman við og kryddið gjarnan með meira af salti og pipar. Berið strax fram með nýrifnum parmesan.

Gómsætt basilíkupestó 

• 1 búnt basilíka
• 100 g ristaðar furuhnetur
• 50 g ferskur parmesan-ostur
• Safinn úr hálfri límónu
• Salt og pipar, magn eftir smekk
• 1-2 dl ólífuolía, magn eftir smekk

Aðferð:
1. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota. Þið stjórnið þykktinni með ólífuolíunni.

mbl.is/Eva Laufey
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka