Svona hefur þú aldrei smakkað blómkál áður

mbl.is/Hanna

Blómkál er formlega að vinna keppnina sem mest spennandi grænmetið í augnablikinu. Þannig að ef þú ætlar að bjóða upp á meðlæti aldarinnar eða mögulega bara besta snarl í heimi þá er þetta algjörlega málið.

Það er meistari Hanna sem á þessa uppskrift en hennar stórkemmtilega matarblogg er hægt að nálgast HÉR.

Kraumandi blómkál með swarma-kryddsmjöri og fetasósu

„Ég fékk hugmynd að þessum rétti þegar ég var að fletta erlendu tímariti um daginn. Þar sem ég á stundum erfitt með að fara nákvæmlega eftir uppskrift gerði ég mína eigin útgáfu af réttinum og er ég búin að elda hann nokkrum sinnum. Þá hef ég haft hann sem meðlæti með grillkjöti en ég efast ekki um að hann sé líka góður með ýmsum fiskréttum eða bara einn og sér. Rétturinn bragðast glimrandi vel og þeir sem aðhyllast ketófæði ættu að veita honum athygli.“

Ath.  Ef blómkálið er í minna lagi má alveg minnka fetasósuna – jafnvel gera bara hálfa uppskrift.

Forvinnsla

Hægt að útbúa swarma-smjörið og fetasósuna eitthvað áður. Einnig má sjóða blómkálið fyrr um daginn.

  • 1 stórt blómkálshöfuð
  • ½ – 1 tsk. salt
  • Vatn – rúmlega botnfylli

Swarma-smjör

  • 50 g smjör – við stofuhita
  • 2 msk. swarma-krydd
  • 1 – 2 stk. hvítlauksrif – söxuð smátt
  • ½ msk. sítrónusafi
  • ½ dl olía

Fetasósa

  • 180 – 200 g fetaostur (nota fetakubb)
  • 1 stk. grænn chilipipar eða ferskt jalapenos
  • 2 dl sýrður rjómi

Skraut

  • Steinselja – söxuð smátt
  • Seasamfræ
  • Saltflögur og pipar
  • Vorlaukur – skorinn í þunnar sneiðar
  • Ávextir eins og bláber eða granatepli – má sleppa

Swarma-smjör

  1. Smjöri, hvítlauk og swarma-kryddi blandað saman í skál. Ef smjörið er of hart bræði ég það aðeins svo að það blandist kryddinu betur
  2. Olíu blandað saman við ásamt sítrónusafa.

Fetasósa

  1. Fetaostkubburinn settur í kalt vatn í 5 mínútur. Vatnið sigtað frá
  2. Sýrðum rjóma, fetaosti og chili/jalapeno blandað saman í öflugum blandara eða matvinnsluvél.

Blómkál

  1. Blómkálið skolað og snyrt en ekki taka öll grænu blöðin af – gott að skera aðeins af stiklinum neðst
  2. Vatn sett í pott og saltað. Ath. ekki hafa of mikið vatn – bara þannig að blómkálið sjóði meira í  gufunni en í vatninu. Lokið sett á pottinn og vatnið hitað að suðu
  3. Blómkálshöfuðið sett í pottinn og suðan látin koma upp aftur. Hitinn lækkaður í meðalhita. Tekið úr pottinum eftir 7 – 8 mínútur eða þegar hægt er að stinga prjóni í gegn (má vera smá fyrirstaða). Ath. ekki ofsjóða blómkálið
  4. Blómkálið sett í sigti þannig að vatnið renni vel af því
  5. Kryddsmjörinu smurt á blómkálið. Ágætt að eiga örlítið eftir af því til að smyrja á kálið rétt eftir að það er komið úr ofninum
  6. Saltað og piprað
  7. Ofninn hitaður í 240°C (gott að stilla á grillstillingu). Blómkálið sett á ofnplötu eða í eldfast mót/pott og grillað í 5 – 7 mínútur. Fallegt að fá smá lit á það. Afgangi af swarma-smjörinu smurt á í lokin.

Samsetning

  1. Blómkálshöfuðið tekið úr ofninum og fetasósunni hellt yfir. Vorlauk, steinselju og seasamfræjum dreift yfir.
mbl.is/Hanna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert