Mánudagsfiskur í sparibúningi

mbl.is/Eva Laufey

Þessi uppskrift er hreinasta sælgæti en þó svo einföld og frábær. Það sem er þó mögulega best við þennan rétt er að hann er svo heiðarlegur eins og útvarpsmaðurinn Sigurður Þorri Gunnarsson mynd segja. Smjör og hveiti - salt og pipar og þorskur - er eitthvað sem getur ekki klikkað.

Það er sjálf Eva Laufey sem á þessa uppskrift og þá er hún gulltryggð. Njótið vel!

Heimasíðu Evu er hægt að nálgast HÉR.

Mánudagsfiskur í sparibúningi

Fyrir 3-4

Hráefni:

• 800 g þorskhnakkar, roð- og beinlausir
• Olía
• Smjör
• Salt og pipar
• 4 dl mjólk
• 4 dl hveiti

Aðferð:

1. Skerið þorskhnakka í jafn stóra bita, setjið hvern bita ofan í mjólkina og því næst ofan í skál með hveiti, salti og pipar.
2. Hitið olíu á pönnu og steikið fiskinn í nokkrar mínútur á hvorri hlið (ég myndi segja ca. 3 mínútur).
3. Það er mjög mikilvægt að pannan sé mjög heit þegar fiskurinn fer á en annars verður hjúpurinn ekki nógu stökkur. Bætið smjöri út á pönnuna í lokin og hellið vel yfir fiskinn, það er nauðsynlegt að hafa nóg af smjöri!

Blómkálsmauk

• 1 stórt blómkálshöfuð
• 2 msk mjör
• 1 dl rjómi
• Salt og pipar

Aðferð:

1. Skerið blómkálið bita og sjóðið í söltu vatni þar til blómkálið er orðið mjúkt.
2. Hellið soðvatninu af og setjið blómkálið í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota, bætið smjöri við og rjóma eftir smekk (magnið fer eftir því hversu þykkt maukið á að vera).
3. Kryddið til með salti og pipar.

Lauksmjör
• Smjör
• 1 laukur

Aðferð:

1. Afhýðið laukinn og skerið í þunnar sneiðar, setjið í pott ásamt smá smjöri og steikið þar til laukurinn er orðinn mjúkur í gegn. Þá bætið þið enn meiri smjöri saman við sem þið hellið síðan yfir fiskinn þegar hann er klár.

*Ég flysjaði gulrætur, skar í tvennt og sauð í söltu vatni ásamt ferskum aspas í nokkrar mínútur. Það passar fullkomnlega með þessum fiskrétt!

mbl.is/Eva Laufey
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka