Steiktur humar í hvítlauks-rjómasósu

Kristinn Magnússon

Hver getur staðist girnilegan humarrétt? Hvað þá ef hann er borinn fram með hvítlauksrjómasósu og öðru gúmmelaði? Tryggvi Traustason matreiðslumaður á Kopar er áskorandinn okkar í kokkaþrautinni Fimm eða færri að þessu sinni. Honum brást ekki bogalistin (enda átti enginn von á því) og reiðir hér fram dýrindis humarrétt sem skilgreinist sem skyldusmakk.

Steiktur humar í hvítlauks-rjómasósu

Forréttur fyrir 1-2 manns.

  • 2 stk miðlungsstórir humarhalar
  • ½ stk paprika
  • 8 stk gulrætur
  • 150 ml rjómi
  • 50 ml hvítlauksolía

Aðferð:

1. Humarinn er klofinn endilangt og röndin hreinsuð burt. Passa þarf að fara ekki í gegnum allan humarinn og skera hann í tvennt heldur skal skera 2/3 í gegn.

2. Sex gulrætur eru teknar í djúsvél og safinn kryddaður til með salti. Ef það er ekki til djúsvél á heimilinu má nota keyptan gulrótarsafa.

3. Safinn er settur í pott og síðustu tvær gulræturnar eru flysjaðar og settar heilar ofan í pottinn með gulrótarsafanum. Þetta er síðan soðin á lægsta mögulega hita í 15-20 mínútur eða þar gulræturnar eru mjúkar í gegn. Paprikan er skorin í litla teninga.

4. Humarinn er settur á pönnu með hvítlauksolíunni og steiktur á sárinu þangað til hann er orðinn gullinbrúnn. Þá er humrinum snúið við og paprikan og gulræturnar fara á pönnunna og rétt fá að svitast, síðan er humarinn tekinn af.

5. Rjóminn fer því næst á pönnuna með grænmetinu og fær að sjóða niður þar til hann þykkist örlítið.

6. Kryddið sósuna með salt og pipar. Sjálfum þykir mér einnig gott að setja fáfnisgras með. Humarinn fær að fara aftur á pönnuna og hann þakinn sósu.

7. Diskað upp á fallegan máta.

Tryggvi Traustason - matreiðslumaður á Kopar.
Tryggvi Traustason - matreiðslumaður á Kopar. Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka