Þessi mexíkóska dásemd er fyrir löngu búin að smeygja sér inn í íslenska matarmenningu og er reglulegur gestur á borðum landsmanna. Ég hef enn ekki hitt manneskju sem ekki kann að meta taco enda er endalaust hægt að leika sér með samsetningar og sósur. Taco (og burrito) hentar afburðavel í grænmetiseldamennsku enda byggjast uppskriftir mikið á guacamole, baunum og salsa.
Mjúkar taco-skeljar:
- ½ dl ólífuolía
- 1 tsk. sjávarsalt
- 1 tsk. vínsteinslyftiduft
- 3½ dl hveiti
- 2 dl volgt vatn
Aðferð:
Blandið saman á litlum hraða í hrærivél. Fletjið út með kökukefli í litlar kökur. Kælið í um 10 mínútur. Hitið á meðan olíu á pönnu. Takið kökurnar úr kæli og steikið þar til þær taka á sig gullinbrúnan lit, í um það bil 5-7 mínútur á hvorri hlið.
Portobello- og sætkartöflutaco
1 portobellosveppur
Kryddlögur:
- 1 dl ólífuolía
- 2 msk. tamari- eða sojasósa
- 1 hvítlauksgeiri
- 1 msk. balsamikgljái/síróp
- 1 msk. vegan-worcestershiresósa
Sætkartöflur:
- 1 sæt kartafla
- 1 msk. ólífuolía
- paprikukrydd
- salt
- pipar
- kanill á hnífsoddi
Meðlæti:
- kóríander, ferskt
- guacamole (hægt að kaupa tilbúið eða blanda saman stöppuðu avókadói, rauðu chili, söxuðum lauk og kóríander, sítrónu, salti og pipar)
- salsasósa
Aðferð:
- Blandið kryddlöginn í skál. Skerið portobellosveppinn í sneiðar og veltið vandlega upp úr blöndunni. Látið marinerast í hálftíma.
- Hitið ofninn í 200°C. Skerið sætu kartöfluna í teninga og veltið bitunum upp úr blöndu af ólífuolíu, paprikukryddi, kanil, salti og pipar. Setjið í ofnskúffu og bakið í 14-16 mínútur.
- Veiðið sveppi upp úr marineringu og steikið á pönnu við miðlungshita. Bætið örlitlu af marineringunni við og steikið í 8-10 mínútur þar til sveppirnir eru mjúkir. Takið af pönnu og sigtið vökva frá.
- Deilið sætkartöfluteningum og sveppum í taco og bætið guacamole, salsasósu og ferskum kóríander við.
Bók Guðrúnar Sóleyjar þykir afbragðs veganesti út í vegan-lífið. Svo þarf maður ekkert endilega að vera vegan til að geta eldað upp úr bókinni - það er ekki eins og kjötætur þurfi að borða kjöt í hvert mál!
mbl.is/Salka