Vinsælustu uppskriftir Grillmarkaðarins komnar út í bók

mbl.is/samsett mynd
Bókin Grillmarkaðurinn eftir Hrefnu Rósu Sætran er komin út. Hún inniheldur hátt í 70 girnilegar uppskriftir af samnefndum veitingastað. 

Bókin er óður til Grillmarkaðarins og er sett upp á sama hátt og ferðalag um veitingastaðinn. Í henni má finna vinsælustu rétti staðarins í bland við uppáhaldsrétti Hrefnu Rósu Sætran. Hún inniheldur sígilda rétti sem hafa horfið af matseðlinum þannig að fastakúnnar Grillmarkaðarins geta glaðst við að finna gamla kunningja á síðum hennar og geta prófað sig áfram í eldhúsinu heima.

Eins og nafn veitingastaðarins og bókarinnar gefur til kynna er grillið í aðalhlutverki enda frábær leið til elda gott hráefni. Þótt það færist sífellt í aukana að fólk grilli allt árið getur íslensk veðrátta sett strik í reikninginn sem er ekki mjög hentugt þegar á að halda veislu. Þess vegna fylgir öllum uppskriftunum leiðbeiningar um hvernig má elda þær inni.

mbl.is/
„Við stofnuðum Grillmarkaðinn árið 2011 og höfum verið svo lánsöm að hann hefur verið meðal vinsælustu veitingastaða landsins síðan. Við lögðum mikla vinnu í að staðurinn sjálfur og matseðillinn væri í takt við íslenskt landslag og notum mikið þau hráefni sem eru okkur innan handar í drykki og mat,“ segir Hrefna Rósa Sætran og bætir við „Við leggjum áherslu á að bjóða upp á eins ferskt hráefni og völ er á og að þau komi beint frá bændum. Þess vegna erum við í samstarfi við fjölda íslenskra bænda sem leggja stund á fjölbreytta framleiðslu og búskap. Við viljum að fólk geti gengið að því vísu að hráefnið sé það besta sem völ er á þegar það kemur að borða á Grillmarkaðnum. Við undirbúum svo hráefnið af natni og umhyggju, bæði fyrir náttúrunni, bragðlaukunum og hefðinni.“
Nú geta sælkerar skapað sinn eigin Grillmarkað í stofunni heima og boðið vinum og í fjölskyldu í margrétta veislu með tilheyrandi fordrykk, allt í anda Grillmarkaðarins.
Hrefna Rósa Sætran hefur verið meðal fremstu matreiðslumanna landsins um árabil. Hún á og rekur Fiskmarkaðinn, Grillmarkaðinn og Skelfisksmarkaðinn og er eitt þekktasta nafnið í veitingahúsarekstri hérlendis. Hún hefur stýrt og framleitt sjónvarpsþætti á öllum helstu sjónvarpsstöðvum landsins og var meðlimur í, og keppti með, kokkalandsliðinu til fjölda ára.
Björn Árnason ljósmyndaði og útkoman er einstök. Bókin kemur út bæði á íslensku og ensku og Salka gefur út.
Hrefna Rósa Sætran.
Hrefna Rósa Sætran. mbl.is/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert