Bjarni Siguróli: Allt lagt undir í keppninni

Bjarni Siguróli Jak­obs­son.
Bjarni Siguróli Jak­obs­son.

Bjarni Siguróli Jakobsson keppir í næstu viku fyrir hönd Íslands í Bocuse d’Or sem er ein virtasta matreiðslukeppni heims. Þrotlausar æfingar liggja að baki og Matarvefurinn mun að sjálfsögðu fylgjast með hverju skrefi Bjarna og hans glæsilega teymis næstu daga.

Bjarni segir að áhugi hans á Bocuse d’Or hafi kviknað fyrst þegar hann var aðstoðarmaður hjá Þráni Frey sem keppti fyrir Íslands hönd árið 2011. Síðan hafi mikið vatn runnið til sjávar og Bjarni gert frábæra hluti á sínu sviði, meðal annars verið fyrirliði kokkalandsliðsins og náð frábærum árangri í keppnum víðs vegar.

<a href="https://www.mbl.is/matur/frettir/2019/01/17/aefir_stift_fyrir_bocuse_d_or_i_lyon/" target="_blank">hlekkur</a>

„Fyrir tveimur árum síðan fór ég á 2017 keppnina að fylgjast með og ákvað þá að þetta yrði mitt næsta verkefni," segir Bjarni en þá keppti einmitt Viktor Örn Andrésson fyrir Íslands hönd og náði þriðja sætinu en Viktor er í dag þjálfari Bjarna.

„Ferðalagið leggst vel í hópinn enda frábærir einstaklingar sem hafa unnið hörðum höndum að undirbúningnum okkar sem hefur verið full vinna í yfir 13 mánuði. Ég hef góða tilfinningu fyrir ferðinni og trúi því í einlægni að okkur eigi eftir að ganga vel enda höfum við sett allt í sölurnar og allir sem koma að hafa lagt sig alla fram í verkefnið.“

<a href="https://www.mbl.is/matur/frettir/2018/06/12/islendingar_na_godum_arangri_i_bocuse_d_or/" target="_blank">hlekkur</a>

Bjarni segir markmiðið fyrst og fremst að eiga frábæran dag og ef áætlanir gangi upp þá eigi það að tryggja bæði góða frammistöðu sem menn geti verið stoltir af. „Verkefnið nú í keppninni er að elda kálfahrygg í ofni á rifbeinum og grænmetisterta “chartreuse” fyllt með skelfisk sem eru gríðarlega flókin og tæknileg í framkvæmd. Okkar uppskriftir eru vel útfærðar og eiga örugglega heima í toppslagnum í keppninni. En það er fjölbreyttur hópur dómara sem eru 24 talsins sem skera úr um sigurvegara og við skulum leyfa þeim að dæma um það hverjir eru bestir þetta árið.“

Keppnin er gríðarlega hörð en hvaða þjóðir eru það að mati Bjarna sem ber að fylgjast með?

„Það eru klárlega nokkrar þjóðir eins og Noregur, USA, Svíþjóð, Danmörk, Finnland, Frakkland, Japan, Belgía, Sviss og fleiri sem eru með mikla keppnisreynslu í sínum herbúðum, sterkt bakland og líka þjálfara sem hafa nánast helgað líf sitt keppninni. Sumir hafa keppt 2-3 sinnum og þekkja ekkert annað en að klára keppnina með stæl á palli.  Samkeppnin er því mikil og engan veginn sjálfsagt að eiga vísa leið á pall í svona keppni. Við Íslendingar höfum í þeim 11 keppnum sem við höfum tekið þátt, í tvö skipti átt keppanda sem fær brons. Ég er svo heppinn að núverandi þjálfari minn hann Viktor Örn náði einmitt þeim merka áfanga 2017 og hef ég notið góðs af og einnig annarra fyrrum keppenda og lært mikið af þeirra reynslu sem skilar mér á þann stað sem ég stend á í dag.“

Bjarni Siguróli Jak­obs­son.
Bjarni Siguróli Jak­obs­son. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert