Lykilatriðin í góðri eldhúshönnun

Við þurfum að vanda vel efnisval og skipulag í mest …
Við þurfum að vanda vel efnisval og skipulag í mest notaða rými hússins. mbl.is/elledecoration.se

Ertu að spá í að skipta út eldhúsinnréttingunni? Þá eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga til að gera eitt mest notaða rými hússins eins þægilegt og hagkvæmt og hugsast getur.

Á bak við eldavélina
Ef eldavélin snýr að vegg, vandaðu þá valið hvað þú setur á vegginn. Mikið af fitu og öðrum mat mun slettast á vegginn sem þú vilt að verði auðvelt að þrífa.

Borðplatan
Borðplata er ekki bara borðplata. Þær eru jafn mismunandi og þær eru margar. Það er mikill munur á því að velja harðan stein sem þú mátt leggja heita potta ofan á eða viðarplötu sem þarf að hugsa vel um varðandi rispur og annað eins.

Djúpar borðplötur
Ef þú býrð svo vel að eiga mjög rúmgott eldhús er alveg geggjað að vera með aðeins dýpri borðplötu en gengur og gerist. Það gefur innréttingunni annan brag og eykur borðpláss.

Innréttingin sjálf
Úrval af framhliðum á eldhúsinnréttinguna er ótæmandi í dag. Við mælum með að velja framhliðar sem auðvelt er að þrífa. Það er til dæmis mun auðveldara að eiga við viðar-innréttingu en háglans.  

Vaskurinn
Á að velja vask sem er límdur beint á borðplötuna eða einn sem er innfelldur? Við mælum með innfelldum ef þú vilt sleppa við að óhreinindin safnist fyrir í kringum vaskinn sjálfan fyrir utan hvað það er mun stílhreinna.

Efri skápar
Ef þú ætlar að hafa efri skápa í innréttingunni láttu þá ná alla leið upp í loft. Þú sleppur við að þrífa þar ofan á og innréttingin verður glæstari fyrir vikið.

Skipulagið
Við vitum öll hvernig það er að finna útrunnar kryddjurtir, dósamat og annað lengst inn í djúpum skápum – algjör sóun á mat. Reyndu eftir bestu getu að hanna eldhúsið með góðu skipulagi þar sem allt á sinn stað. Það er til dæmis auðveldara að hafa yfirsýn yfir hvað sé til í útdraganlegum skúffum en inni í djúpum skápum sem við rétt svo náum að reka nefið inn í.

Vinnuþríhyrningurinn
Mundu eftir vinnuþríhyrningnum – ísskápur, eldavél og vaskur. Eins er gott að staðsetja uppþvottavélina nálægt þeim skáp þar sem þú geymir glös og diska, svo einfaldara verði að tæma úr vélinni.

Háfur
Fjárfestu í góðum háfi sem vinnur vinnuna sína vel þegar kemur að því að eldamennskan dettur í eintóma brælu.

Háfurinn skiptir höfuðmáli og þar ættum við ekki að spara …
Háfurinn skiptir höfuðmáli og þar ættum við ekki að spara aurana. mbl.is/Fjarasflakten_Bertazzoni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert