Góð pavlova stendur ætíð fyrir sínu og hér gefur María Gomez á Paz.is okkur uppskriftina sína sem er sérdeilis girnileg eins og sjá má. María segir að galdurinn við vel heppnaða pavlovu sé að hafa eggin við stofuhita og mala sykurinn ögn í blandara til að hann smjúgi sem best inn í eggjahvíturnar. Svo megi auðvitað ekki gleyma sýru eða Cream of tartar.
Pavlovan sem enginn getur staðist
- 4 eggjahvítur úr stórum eggjum (við stofuhita)
- 200 g súperfíngerður sykur (malaður á pulse).
- 1 tsk. hreint vanillu-extract.
- ½ tsk. cream of tartar eða 1 tsk. af sítrónusafa, borðediki eða eplaediki (bara eitt af þessu). Ég notaði Cream of tartar.
- 1 tsk. kartöflumjöl (ekki sleppa)
Ofan á:
- Drekaávöxtur, kiwi, bláber, brómber, banani
- ½ lítri rjómi
- Vill-súkkulaðihúðuð hindber eða bláber (fást í Krónunni og fullkomna kökuna)
- Vill-hreint mjólkursúkkulaði
- Vill-skógarberjahlaup
- 2 jarðarberjasmáskyr
Aðferð:
- Byrjið á að hita ofninn í 175 C° blástur.
- Setjið svo eggjahvítur í hrærivél og byrjið að þeyta á miklum hraða í alveg 5 mínútur (takið tímann).
- Á meðan er gott að setja sykurinn í blandarann og stilla nokkrum sinnum á pulse til að mala hann fínna en þó ekki eins fínan og flórsykur.
- Setjið svo sykurinn út í eggjahvíturnar meðan þær eru enn að þeytast í tvennu lagi. Gott að láta 30 sek. líða á milli og haldið áfram að þeyta í eins og tvær mínútur í viðbót.
- Bætið svo við vanillu-extractinu og þeytið í 1 mínútu í viðbót.
- Slökkvið nú á hrærivélinni og setjið Cream of tartar og kartöflumjöl út í og hrærið með sleikju mjög varlega þar til það er komið vel inn í eggjablönduna.
- Setjið svo bökunarpappa á plötu og teiknið eins og 23 cm hring.
- Setjið svo alla blönduna inn í hringinn og mótið fallegan botn grynnri fyrir miðju. Svona eins og smá dæld í miðjunni.
- Stingið nú í ofninn og lækkið hitann strax niður í 95 C°og látið bakast í 90 mínútur.
- Þegar 90 mínútur eru liðnar slökkvið þá á ofninum og látið hana kólna þar inni eins lengi og kostur er. Best yfir heila nótt en annars í ekki minna en 2 klst.
- Því lengur því meira seig og sykurpúðaleg verður hún í miðjunni.
Samsetning
- Ekki setja á botninn fyrr en rétt áður en á að bera tertuna fram.
- Þeytið rjóma og bætið tveimur jarðarberjasmáskyrum út í (þessi pínulitlu) og þeytið vel saman.
- Setjið næst rjómann vel ofan á pavlovuna.
- Skerið niður ávextina sem þarf að skera og dreifið yfir rjómann.
- Setjið svo hlaup og súkkulaðihúðuð bláber yfir á milli berjanna og endið svo á að setja súkkulaðibrot sem standa upp úr rjómanum.
- Berið strax fram og njótið í botn.