Járnpönnur hafa aldrei verið eins vinsælar og núna, enda stórsniðugar til að elda matinn, sérstaklega þegar þú getur skellt pönnunni síðan beint inn í ofn og líka borið réttinn fram á henni. Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga til að auka lífslengd pönnunnar.
Notið pönnuna eins oft og þið getið
Steypujárnspanna verður bara betri og betri eftir því sem þú notar hana meira. Sumum finnst erfitt að elda á pönnunni þegar hún er ný, en því meira sem þú notar pönnuna, því meiri húð myndast á henni sem gerir eldamennskuna sáraeinfalda.
Ekki láta hana liggja í bleyti
Forðist með öllum mætti að fylla pönnuna af sápuvatni og láta hana standa í einhverja tíma til að ná matarleifum úr. Til lengri tíma gæti pannan sogið vatnið í sig og byrjað að ryðga – og það viljum við ekki. Ef þú ert að glíma við fastar matarleifar er ágætisráð að setja nokkra bolla af vatni út á pönnuna og láta suðuna koma upp. Þá er auðveldara að skrapa matarleifarnar í burtu. Skolið, þurrkið, berið olíu á pönnuna og hún er tilbúin til notkunar.
Enga grófa þrifsvampa
Eins frábærir og þrifsvampar eru í alls kyns verkefnum skaltu ekki nota grófa svampa á pönnuna. Slíkir svampar rispa pönnuna meira en járnáhöld við eldamennskuna.
Geymdu pönnuna á góðum stað
Sumir eru gjarnir á að geyma pönnuna inni í ofni á meðan hún er ekki í notkun sem er ekki endilega besti staðurinn. Sérstaklega þegar þú gleymir að taka pönnuna úr ofninum áður en þú byrjar að hita hann. Geymdu pönnuna á góðum stað og helst með öðrum pottum og pönnum. Gott er að setja eldhúspappír á milli ef þú leggur nokkrar pönnur saman.