Gömlu góðu vatnsdeigsbollurnar

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Það er fátt sem við elskum meira en gömlu góðu vatnsdeigsbollurnar þótt það geti vafist fyrir ýmsum að baka þær (nefni engin nöfn). Margir vilja þær bara með sultu, rjóma og súkkulaðiglassúr en svo má líka flippa og setja það sem hugurinn girnist á milli.

Þessi æðislega uppskrift kemur frá Berglindi Hreiðars á Gotteri.is.

Gamaldags vatnsdeigsbollur með sultu og rjóma

Vatnsdeigsbollur
  • 190 g smjör
  • 375 ml vatn
  • 190 g hveiti
  • 6 egg

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C með blæstri.
  2. Hitið saman smjör og vatn í potti þar til smjörið er bráðið og leyfið aðeins að sjóða saman.
  3. Slökkvið þá á hellunni og setjið hveitið út í smjörblönduna og blandið vel með sleif, hrærið dágóða stund saman þar til deigið losnar frá köntunum.
  4. Færið deigið nú yfir í hrærivélina og notið K-ið á lægstu stillingu til að leyfa hitanum aðeins að rjúka úr.
  5. Pískið eggin saman í skál á meðan og bætið þeim síðan saman við í litlum skömmtum. Stundum duga 5 eða 5½ egg ef þau eru stór svo geymið að bæta restinni saman við þar til í lokin.
  6. Deigið á að vera teygjanlegt og ekki of þunnt, það verður að halda hæð þegar það er sett á bökunarplötuna.
  7. Best er að setja vel kúfaða teskeið (um það bil 2 tsk.) af deigi með góðu millibili á bökunarplötu íklædda bökunarpappír. Fínt er að miða við um 15 bollur á hvora plötu, uppskriftin gefur um 30 bollur.
  8. Bakið bollurnar í 20-22 mínútur eða þar til þær eru vel gylltar og ekki opna ofninn á meðan því þá geta þær fallið.

Fylling

  • 500 ml þeyttur rjómi
  • jarðarberjasulta frá Den Gamle Fabrik
  • hindberjasulta frá Den Gamle
    Fabrik
  • fersk hindber og jarðarber (má sleppa)

Smyrjið vel af sultu á neðri botninn á hverri bollu (15 með jarðarberja- og 15 með hindberjasultu).

Sprautið rjóma ofan á sultuna og raðið ferskum berjum þar næst.

Setjið lokið á og útbúið glassúrinn.

Glassúr

  • 100 g brætt smjör
  • 215 g flórsykur
  • 3 msk. bökunarkakó
  • 3 tsk. vanilludropar
  • 2 msk. heitt kaffi

Setjið allt saman í skál og hrærið saman með písk þar til vel blandað.

Setjið góða teskeið af glassúr ofan á hverja bollu og dreifið úr.

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert