Hin fullkomna vatnsdeigsbolla

mbl.is/María Gomez
Hér erum við með aðra og ekki ósvipaða útgáfu af hinni klassísku vatnsdeigsbollu en þær standa ávallt fyrir sínu. Hér er ekkert verið að finna upp hjólið enda engin þörf á. Það er María Gomez á Paz.is sem á þessa uppskrift.

Hin fullkomna vatnsdeigsbolla

  • 115 g smjör
  • 235 g vatn (vigtið það á vog)
  • ½ tsk. salt
  • 1 tsk. sykur
  • 130 g hveiti
  • 4 egg

Glassúr ofan á:

  • 3 dl flórsykur
  • 3 msk. kakó
  • Vatn eftir því hversu þykkan þið viljið hafa hann en byrjið samt fyrst bara með 1 tsk. og bætið svo við
  • klípu af salti

Aðferð:

Þessu er öllu hrært saman í skál og þá er glassúrinn til. Setjið vatn, salt, sykur og smjör í pott yfir miðlungshita. Hitið saman þar til byrjar að sjóða. Þegar suðan er komin upp setjið þá hveitið út í og hrærið stöðugt í með sleif þar til myndast eins og filma í botninn á pottinum og deigið er orðið vel blandað saman (ca. 1-3 mín.). Setjið svo deigið til hliðar í 5 mínútur (takið tímann).

Bætið nú einu eggi út í og hrærið stöðugt. Fyrst bregður ykkur og þið haldið að deigið sé að skemmast því það fer allt í sundur en hrærið þar til það er samsett aftur.

Þá er að bæta eggi númer tvö í og þá gerist aftur það sama. Þegar deigið er samsett aftur þá er þriðja egginu bætt í. Haldið áfram svona þar til öll eggin fjögur eru komin út í.

Mér finnst best að sprauta deiginu á ofnskúffu með bökunarpappír. Þá tek ég plastsprautupoka og klippi frekar stórt gat á pokann en hef engan stút. Svo sprauta ég bollu á skúffuna og passa að hafa ágætt bil á milli næstu bollu. Dýfið svo puttanum í vatn og strjúkið yfir geirvörtuna sem myndast ofan á bollunni eða toppnum sem stendur upp þannig að bollan verði flöt ofan á. Penslið svo að lokum með hrærðu eggi.

Bakist í 30-35 mínútur á 190°C blæstri.

Þegar bollurnar eru teknar út látið þær þá alveg í friði ofan á ofnskúffunni þar til þær eru orðnar kaldar, þá falla þær ekki og halda lögun sinni.

Skerið þær svo í sundur og setjið sultu á botninn og rjóma ofan á og lokið.

Toppið með súkkulaðiglassúr og/eða flórsykri en hvort tveggja er rosa gott.

mbl.is/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert