Það er sagt að leiðin að hjarta mannsins sé í gegnum magann! Og hversu magnað væri að geta hálfpartinn valið sér maka út frá því hvað hann borðar? Finna einhvern sem skilur mann þegar furðuleg „cravings“ sækja að manni án þess að vera dæmdur fyrir það.
Refridgerdating er nýtt stefnumóta-app sem styður við þessa tillögu hér að ofan. Í stað þess að pósta misgóðum sjálfsmyndum út í náttúrunni eða með hundinum, þá birtast myndir af innihaldi ísskápsins þíns.
Samsung setti þetta app á laggirnar rétt fyrir Valentínusardaginn þar sem fólki er kleift að leita að ástinni í gegnum kæliskápinn, unnið í samstarfi við Family Hub smart-fridge. Appið virkar í raun eins og Tinder þar sem þú svæpar til hægri eða vinstri eftir því hvað heillar þig. Þú gætir dottið niður á gamla samloku og tóman ísskáp, eða fundið einstakling með áhugaverðan matarsmekk – eins og þú.