Hádegissalatið sem reddar deginum

mbl.is/María Gomez

Salat í hádeginu er eitthvað sem fleiri ættu að taka sér til fyrirmyndar. Þá ekki síst salat sem hægt er að taka með sér í vinnuna og sér til þess að lífið verði örlítið betra og mittismálið haldist í lagi. Eða svona þannig. Þetta salat er að sögn Maríu Gomez á Paz.is algjört sælgæti. Og við trúum henni alveg. Hvernig á eitthvað sem inniheldur allt þetta gúmmelaði að vera annað en stórkostlega gott?

Hádegissalatið sem gerir allt betra

Fyrir 2

  • ½ haus af kínakáli
  • ½ krukka af grænum ólífum
  • ½ rauð papríka
  • 1 dós túnfiskur
  • ½ þroskað mangó
  • ½-1 bolli kasjúhnetur
  • ½ box piccolotómata
  • ½ dl fetaostur
  • 1 dl sýrður rjómi með graslauk, þessi í grænu dollunni
  • Fersk steinselja til skreytingar ef vill en má sleppa

Aðferð

  1. Skerið kálið, paprikuna, tómatana og mangóið niður smátt og setjið í skál
  2. Ristið svo kasjúhneturnar á pönnu og leyfið þeim að dökkna svoldið vel á hliðunum, gefur ferlega gott bragð
  3. Leggið hneturnar til hliðar og kælið í örlitla stund
  4. Setjið næst ólífurnar út á í skálina og fetaostinn, passið að sigta olíuna vel frá fetaostinum
  5. Sigtið næst vel allan safa eða olíu af túnfisknum og tætið yfir salatið í skálinni
  6. Setjið nú hneturnar út á og blandið þessu vel saman
  7. Setjið að lokum sýrða rjómann út á og hrærið vel saman. Sýrði er ekki að fara að gera salatið eins og mayonessalat, heldur er hann meira eins og góð dressing og gefur rosalega gott bragð á salatið svo ekki sleppa honum
mbl.is/María Gomez
mbl.is/María Gomez
mbl.is/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert