Góð ráð til að þjóftryggja heimilið

Ertu með allt á hreinu er þú ferð í frí?
Ertu með allt á hreinu er þú ferð í frí? mbl.is/Getty Images

Það er dásamlegt að skella sér í langþráð frí og komast í burtu frá heimilinu – en það er ekki eins skemmtilegt að koma heim í hálftómt hús. Fingralangir þjófar láta fátt stoppa sig þegar kemur að innbrotum og því gott að vera aðeins á undan þeim hvað það varðar. Þjófavarnarkerfi er ein lausn til að þjóftryggja heimilið en það má líka vinna með aðrar hugmyndir eins og þessar hér fyrir neðan.

Smart-tæki: Það eru til nokkur stórsniðug smart-tæki (t.d. eitt frá Philips) sem kveikja og slökkva ljósin í húsinu í þeim rýmum sem þú vilt á fyrirframstilltum tíma. Rétt eins og einhver sé heima og með húsið í notkun.

Verðmæti: Reyndu að forðast að hafa verðmæti fyrir allra augum. Ef þú býrð á jarðhæð og skilur tölvu eða skartgripi eftir á borðinu er líklegra að það muni freista fingralanga manna.

Aukalykill: Finndu góðan stað til að geyma aukalykilinn og hugsaðu út fyrir kassann. Gætir sett lykilinn undir stein í garðinum eða hengt hann í band sem hangir inn af póstkassanum. Mundu að breyta reglulega um staðsetningu, sérstaklega ef fleiri en þú eru með vitneskju um lykilinn.

Ferðalög: Alltaf að láta nágrannana vita af ferðalögum. Og ef þú ert í burtu til lengri tíma er ekki vitlaust að biðja einhvern um að koma og tæma póstkassann og vökva blómin

Auka lás: Það má alveg hafa í huga að setja auka lás á suma glugga og hurðir. Svalahurðin er mjög vinsæll inngangur hjá þjófum, því gott að smella auka læsingu á hana.

Samfélagsmiðlar: Helst ekki birta á samfélagsmiðlum að þú sért að fara í frí í 2 vikur eða hvaða tími sem það er. Smelltu frekar í góðan status eftir ferðina með myndum úr ferðinni.

Taka myndir: Að lokum er gott að geyma öll verðmæti í læstum skáp, eða merkja dótið þitt þannig að það yrði erfiðara fyrir þjófinn að koma hlutnum í endursölu. Eins er gott að taka myndir af verðmætunum til að eiga ef eitthvað kæmi upp á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert