Dúnmjúkt brauð bakað í leirpotti

mbl.is/Hanna

Það er fátt betra en dúnmjúkt heimabakað brauð og hér er aðferð og útfærsla sem allir – og þá meina ég allir – ráða við.

Það er engin önnur en Hanna sem á þessa uppskrift og á matarblogginu hennar Hanna.is er hægt að fá enn ítarlegri leiðbeiningar fyrir þá sem þess þurfa.

Dúnmjúkt brauð bakað í leirpotti

Fékk þessa uppskrift hjá Eriku fyrir mörgum árum og hef notað grunninn til að gera mismunandi útfærslur af brauðmeti. Þessi uppskrift er sérstaklega fljótleg og er hún oft á óskalistanum hjá börnunum. Brauðið er best nýbakað en einnig gott daginn eftir í nestisboxið eða í brauðristina.

Ath. Það er háð pottastærð hvort uppskriftin passar sem 1 brauð eða 2.

  • 1 bréf þurrger (ca. 12 g) eða 25 g pressuger
  • ½ lítri mjólk
  • 1 msk. hunang
  • 1 tsk. salt
  • 10 – 13 dl hveiti – hægt að minnka það magn og setja gróft korn, haframjöl eða heilhveiti í staðinn.

Verklýsing

  1. Þurrger/pressuger og salt sett í skál. Ath. hægt að nota minna ger og lengja hefingartímann. T.d. setja helmingi minna af geri og auka hefingartímann um 1 – 1½ klukkustund.
  2. Mjólk og hunang hitað (37°C) og hellt í skálina. Hrært í með sleikju –  nokkrum dl af hveiti bætt við og blandað saman. Deigið hnoðað í lokin – deigið á að vera þannig að hægt sé að snerta það án þess að það klístrist við fingurna en á alls ekki að vera þurrt.
  3. Klútur lagður yfir skálina og deigið látið hefast í 1 klukkustund á stað þar sem ekki er trekkur.
  4. Ofninn settur á 225°C (u.þ.b. 15 mínútum áður en deigið er fullhefað). Potturinn settur í ofninn um leið og kveikt er á honum.
  5. Þegar ofninn hefur náð hitanum er potturinn tekinn út og deigið sett í hann. Ef deigið er of stórt í pottinn má skipta því til helminga og baka í tvennu lagi (einnig má helminga uppskriftina).
  6. Brauðið bakað í 25 mínútur – ágætt að taka lokið af aðeins áður til að fá fallegan lit á brauðið.

Geymsla

Brauðið er ágætt daginn eftir og geymist vel í frysti en bara ekki of lengi.

mbl.is/Hanna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka