Nýjasta afurð Freyju sögð marka tímamót

mbl.is/Freyja

Súkkulaðigerðarfólk hefur verið afskaplega frumlegt undanfarin misseri og hefur margt verið dregið upp úr hattinum. Sjálfsagt er piparinn þar fremstur í flokki en Freyja hefur tekið þróunina lengra og á næstu dögum mun nýjasta afurðin þeirra rata í verslanir hérlendis.

Nýja varan heitir Bernaise-dýr og er fjórða varan í dýralínunni sem notið hefur mikilla vinsælda meðal landsmanna. Hér er óneitanlega farið óvenjulegar leiðir en Pétur Thor Gunnarsson, markaðsstjóri Freyju, sagði í samtali við Matarvefinn að þetta væri vissulega óhefðbundin bragðsamsetning og áhættusöm en engu að síður áhætta sem Freyja væri tilbúin að taka. „Persónulega elska ég bernaise-sósu sem og flestir starfsmenn Freyju þannig að við ákváðum að prufa þetta. Þetta hljómaði auðvitað mjög glannalega en eftir ítarlegar bragðprófanir fundum við réttu samsetninguna og þetta er fáránlega gott „kombó“,“ segir Pétur um nýjustu dýrin í dýragarði Freyju. 

Af þessu tilefni ætlar Freyja að veita 100 sælkerum forskot á sæluna en þeir fyrstu sem mæta á skrifstofu Freyju í Vesturvör 36 í Kópavogi fá að smakka þessa nýjung sem á svo sannarlega eftir að vekja viðbrögð meðal landsmanna sem munu sannarlega hafa skoðun á vörunni. „Þetta er þannig vara, þú annaðhvort elskar hana eða ekki,“ segir Pétur að lokum og spáir því í leiðinni að Bernaise-páskaegg sé mögulega handan við hornið. „Það myndi fullkomna páskana!“

Pétur Thor Gunnarsson, sölu- og markaðsstjóri Freyju.
Pétur Thor Gunnarsson, sölu- og markaðsstjóri Freyju. mbl.is/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka