„Hugmyndin kviknaði út frá því að við vildum leggja okkar af mörkum við að fræða og vekja áhuga barna á hollri matargerð og hjálpa þeim að taka sín fyrstu skref í eldhúsinu,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, um Snarlið sem er eitt af samfélagsverkefnum Krónunnar en nú á dögunum komu ný myndbönd þar sem áherslan er á yngri hóp en áður hefur verið og voru fengin til þess börn sem sjá alfarið um matreiðsluna og stýra þáttunum sjálf.
„Snarlið er eitt af samfélagsverkefnum Krónunnar og varð til vorið 2016. Hugmyndin kviknaði út frá því að við vildum við leggja okkar af mörkum við að fræða og vekja áhuga barna á hollri matargerð og hjálpa þeim að taka sín fyrstu skref í eldhúsinu,“ segir Gréta en það var Ebba Guðný Guðmundsdóttir sem fengin var til liðs við Snarlið. Framleidd voru einföld matreiðslumyndbönd fyrir börn auk þess sem boðið var upp á ókeypis matreiðslunámskeið með Ebbu á vorin og haustin.
Gréta segir að hugmyndafræðin sé í raun afar einföld. „Við vildum gera holla matargerð og fræðslu um mat aðgengilegri fyrir börn. Hugmyndin var sú að geta gefið krökkum innblástur og vekja áhuga þeirra á að prófa sig áfram heima í eldhúsinu þegar þau koma t.d. heim eftir skóla. Við vildum sýna krökkunum að það er hægt fá sér eitthvað hollt og gott heima með lítilli fyrirhöfn. Í fyrstu myndböndunum og á námskeiðunum með Ebbu er farið yfir einfaldar en hollar uppskriftir, en ekki síst vakin athygli á því að það er hægt að nýta hvað sem er til heima. Það þarf ekki alltaf að fara út í búð og kaupa það sama og er í uppskriftinni heldur má t.d. nýta það sem til er heima. Þú getur t.d. notað það álegg sem þú vilt á vefjuna og ef það er ekki til smjör má nýta olíu o.s.frv.”
Ná ekki að anna eftirspurninni
Viðtökurnar hafa verið frábærar að sögn Grétu. „Við höfum aldrei náð að anna eftirspurn eftir námskeiðunum og það komast því miður alltaf færri að en vilja. Það hafa núna yfir 800 börn sótt matreiðslunámskeiðin með Ebbu. En með því að framleiða matreiðslumyndböndin vonumst við til að ná til fleiri barna, en uppskriftirnar á námskeiðunum sjálfum eru allar líka á myndböndum á heimasíðunni Snarlið.is og á Youtube síðu Snarlsins. Nú með nýjustu seríunni eru komin yfir 30 uppskriftamyndbönd á síðuna – svo allir ættu að finna sér eitthvað við sitt hæfi. Við höfum svo líka heyrt af áhorfendum á öllum aldri, það eru ekki alltaf bara börn sem eru að stíga sín fyrstu skref í eldhúsinu.”
Að sögn Grétu er það einstaklega gaman þegar þau fá sendar myndir af afrakstri krakka heima fyrir eftir að hafa farið á námskeið eða horft á myndböndin. „Okkur finnst alltaf svo gaman að heyra af börnum sem hafa farið á námskeið eða horft á myndböndin og eru í kjölfarið að gera uppskriftirnar heima og prófa sig áfram. Það verður gaman að heyra af viðbrögðunum við nýju seríunni, en í henni eru bara börn á aldrinum 8-11 ára sem stýra þessum nýju matreiðsluþáttum.”
Krakkarnir stýra þáttunum sjálf
„Að þessu sinni langaði okkur að prófa að leyfa börnunum að stýra þáttunum alveg sjálf. Börn elska að horfa á jafnaldra sína gera eitthvað á Youtube og við sáum tækifæri í að búa til ábyrgt og nytsamlegt efni á íslensku fyrir Youtube sem er gert af krökkum fyrir krakka. Börn eru ekki mikið að horfa á íslenskt efni á Youtube en við vonumst til að þessi nýju myndbönd eigi eftir að vekja mikla lukku hjá krökkunum til að fylgjast með – og svo spreyta sig líka heima,” segir Gréta en krakkarnir eru eins og áður segir á aldrinum 8-11 og eru að stíga sín fyrstu spor sem matreiðsluþáttastjórnendur.
„Krakkarnir stóðu sig svo vel og við erum í skýjunum með afraksturinn. Það mætti halda að þau hefðu öll stjórnað matreiðsluþáttum áður, þau eru öll algjörir snillingar! Þetta er ólíkur hópur af krökkum á aldrinum 8-11 ára en þau eiga það svo sannarlega sameiginlegt að standa sig vel í eldhúsinu. Við vonum bara að krakkar eigi eftir að finna myndböndin þeirra á Youtube-flakkinu og muni svo prófa sig áfram í kjölfarið í eldhúsinu heima,” segir Gréta að lokum og bætir því við að viðbrögðin við Snarlinu hafi verið framar björtustu vonum og það sé einlæg von hennar að sem flestir krakkar nái að sjá nýju myndböndin og prófa að elda eftir þeim.