Samkvæmt erlendum langtímaveðurspám er stórkostlegt sumar fram undan og því ekki seinna vænna en að þrífa gluggana og gera fínt fyrir gleðina.
Hér eru skotheldar aðferðir til að gluggaþvotturinn heppnist sem best:
Kalkfrítt vatn
Ef það er mikið kalk í vatninu þar sem þú býrð er vatnið úr krananum kannski ekki alveg rétta málið. Þá getur hjálpað að setja smáveigis af ediki út í vatnið.
Þín eigin sápublanda
Búðu til þína eigin blöndu með 5 l af vatni, 1 msk. af uppþvottalegi (litlausum) og 1 tappa af salmíakspíritus. Og gerið blönduna með köldu eða volgu vatni, ekki heitu sem gufar mun fyrr upp á glerinu.
Bíddu eftir rétta augnablikinu
Þvoðu gluggana þegar gluggarnir liggja í skugga og sólin er fjarri góðu gamni. Sólin þurrkar nefnilega rúðuna mun fyrr en annars, og jafnvel svo fljótt að þú nærð varla að þrífa hana almennilega áður en hún þornar.
Skrúbbaðu
Ef það eru blettir á rúðunni skaltu nota svamp til að skrúbba. Þess þarf eflaust eftir langan vetur.
Skafðu
Best er að nota sköfu til að taka sápuvatnið og þrífa gluggana. Byrjið efst í vinstra horni og færið ykkur yfir í hægra hornið. Hér snýst allt um að vera soldið snöggur í snúningum og þurrka reglulega af sköfunni inn á milli.
Gamlir klútar
Notaðu gamla klúta og viskastykki þegar þú þurrkar afganginn af vatninu af rúðunni. Nýir klútar draga ekki eins vel í sig eins og þeir gömlu. Eitt sinn var talað um að nota dagblöð til að þurrka rúðurnar en það er víst liðin tíð.
Að lokum
Munið að þrífa líka gluggakisturnar þegar þið takið gluggana að innan, sem eru örugglega orðnar skítugar eftir öll þessi þrif á glerinu.
- - -
Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...