Brauðtertan sem fólk er að flippa yfir

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Brauðtertur eru mögulega það sparilegasta sem hægt er að bjóða upp á í góðu boði. Reynslan hefur sýnt að þegar kemur að brauðtertum erum við Íslendingar alveg merkilega fastheldnir á hefðir og hreint ekki hrifin af því þegar boðið er upp á einhverjar óvenjulegar nýjungar.

Hér gefur að líta ákaflega fallega og vel heppnaða brauðtertu úr smiðju Berglindar Hreiðarsdóttur á Gotterí & gersemum. Kakan er eins sígild og hugsast getur fyrir utan útlitið sem er ögn óvenjulegt og kemur einstaklega vel út. Það munu væntanlega fáir fjargviðrast út af þessu enda er kakan sérdeilis fögur á að líta.

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Laxa- og rækjubrauðterta 

  • 4 x rúllutertubrauð
  • 500 g Hellmann‘s-majónes (+ ca. 200 g í skreytingu)
  • 1 dós (180 g) sýrður rjómi með graslauk og lauk
  • 1 dós (180 g) sýrður rjómi (36% eða 18%)
  • Salt, pipar, karrý og aromat eftir smekk
  • 2 tsk. sítrónusafi
  • 2 x vorlaukur
  • ½ rauð paprika
  • 13 harðsoðin egg (+ 3 í skreytingu)
  • 500 g rækjur (+ ca 200 g í skreytingu)
  • 200 g reyktur lax (+ ca 200 g í skreytingu)

Aðferð:

  1. Hrærið saman majónesi og sýrðum rjóma þar til vel blandað og kryddið til með salti, pipar, karrý og aromat. Kreistið sítrónusafann saman við og blandið vel.
  2. Saxið paprikuna og vorlaukinn smátt niður og skerið eggin niður í litla bita með eggjaskera.
  3. Skolið rækjurnar og þerrið ásamt því að skera laxinn í smáa bita (saxa hann niður).
  4. Blandið öllu saman við majónesblönduna.
  5. Skiptið jafnt á milli laganna þriggja (brauð efst og neðst).

Samsetning og skreyting

  1. Byrjið á því að skera út rúllutertubrauðin svo þau passi í hringlaga smelluform (um 23-25 cm í þvermál).
  2. Setjið fyrsta brauðið í botninn á smelluforminu á fallegum kökudisk.
  3. 1/3 af fyllingunni er smurt yfir og endurtekið þrisvar sinnum (brauð efst).
  4. Að lokum er tertan smurð með majónesi að utan og skreytt eftir ykkar höfði (ég notaði sítrónusneiðar, rækjur, egg, lax, papriku, radísur og kóríanderlauf að þessu sinni).
  5. Það má líka alveg nota rúllutertubrauðin án þess að skera þau og setja bara minna af blöndu á milli í hverju lagi og hafa þannig stærri, ferkantaða brauðtertu.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert