Leyndarmálið á bak við silkimjúka nautalundina er án efa marineringin en góð marinering getur gert gríðarlega mikið fyrir góðan kjötbita ef hún er góð. Og þessi er góð! Svo góð reyndar að uppskriftin hefur gengið manna á milli í árafjöld uns Berglind Hreiðars á Gotterí.is sá loks ástæðu til að deila henni með okkur. Faðir hennar ku vera Stebbi kokkur sem við þökkum að sjálfsögðu vel unnið verk.
„Lundin er látin liggja í „soyabaði” áður en hún er grilluð. Því lengur sem þið látið hana liggja, því meira skín soyabragðið í gegn en okkur hefur þótt mátulegt að hafa hana í marineringu í 30 mínútur," segir Berglind um marineringuna - eða kryddlöginn eins og það er víst kallað.
Meðlætið er síðan ekki af verri endanum og allt þetta gerir himneska heild.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
Nautalund
- 1,5 kg nautalund
- 1 flaska (150 ml) Kikkoman soyasósa
- Smjör
- Pipar
Aðferð:
- Snyrtið sinar af nautalundinni og leyfið henni að ná stofuhita.
Hringið lundina í skál og hellið soyasósunni yfir svo hún þekjist vel.
Leyfið kjötinu að liggja í soyasósunni í 30 mínútur og snúið einu sinni til að tryggja að soyasósan nái til allra hluta lundarinnar. Takið lundina þá upp úr og hellið afgangs soyasósunni.
Grillið nautalundina þar til hún hefur náð þeim kjarnhita sem þið óskið eftir og nuddið með smjöri að minnsta kosti einu sinni á meðan hún er á grillinu. Sjá leiðbeiningar um kjarnhita hér.
Piprið þá steikina eftir smekk og leyfið henni að standa í að minnsta kosti 10-15 mínútur þar til þið skerið hana niður.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
Sveppasósa
- 250 g kastaníusveppir
- 50 g smjör
- ½ l rjómi
- 1 stk villisveppaostur
- 1 tsk púðursykur
- 1 tsk Kikkoman soyasósa
- 1 tsk fljótandi nautakraftur
- Salt, pipar, hvítlauksduft og Cayenne pipar eftir smekk
Aðferð:
- Skerið sveppina niður í sneiðar og steikið í smjörinu við meðalháan hita þar til þeir fara að mýkjast/brúnast. Kryddið til með salti, pipar og hvítlauksdufti.
- Rífið ostinn og hellið rjómanum saman við.
- Bætið púðursykri, soyasósu og krafti saman við og smakkið til með salti, pipar og cayenne pipar.
- Gott er að leyfa sósunni að malla en hana má líka bera strax fram.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
Salat
- 1 poki klettasalat
- ½ granatepli
- Brómber
- Fetaostur
- Til hamingju ristaðar og saltaðar kasjúhnetur
Aðferð:
- Saxið niður hneturnar og náið fræjunum úr granateplinu.
- Hellið klettasalati í skál, setjið fetaost yfir og blandið öllu saman.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
Kartöflur
- 2-3 sætar kartöflur
- Ólífuolía
- Maple sýróp og pipar
Aðferð:
- Berið ólífuolíu á kartöflurnar, leggið á bökunarpappír og bakið í 200°C heitum ofni þar til þær verða mjúkar í gegn.
- Skerið hverja kartöflu niður í 2-3 hluta, raðið á disk, hellið maple sýrópi yfir og piprið.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
Beikonvafinn aspas
- 1 búnt ferskur aspas
- 1 beikonbréf
- Maple sýróp og pipar
Aðferð:
- Skerið neðsta hlutann af aspasinum og vefjið inn í beikon.
- Grillið eða bakið í ofni þar til beikonið verður stökkt.
- Hellið maple sýrópi yfir og piprið.