Mikilvægasta rými heimilisins er svefnherbergið þar sem svefn er það besta sem við gefum líkamanum. Við eyðum allt að 1/3 af lífinu uppi í rúmi og því er mikilvægt að skapa rólegt andrými, þar sem hugurinn fær fullkomna slökun án alls áreitis. Ef svefnherbergið þitt er ein óreiða þá er tími til að bretta upp ermar og gera eitthvað í málunum.
Veldu húsgögnin vel
Það er best að hafa sem minnst af húsgögnum í herberginu en líka mikilvægt að velja þau vel. Við erum að tala um gott rúm, fataskáp, náttborð og stól eða koll, þar sem þú vilt að þessir hlutir endist þér til lengri tíma.
Litaval
Litaval hefur svo margt að segja um þína líðan í svefnherberginu. Sandlitir eða dökkbláir tónar skapa ró og jafnvægi í rýminu, sem er gott fyrir okkur áður en við dettum inn í draumalandið – að ná púlsinum niður eftir amstur dagsins. Dumbrauður gæti líka gengið en alls ekki hreinir sterkir litir eins og gulur og rauður.
Lýsing
Punkturinn yfir i-ið er alltaf lýsingin, alveg sama hvaða rými um ræðir. Spáðu í hvernig lýsingu þú vilt hafa. Viltu einungis hafa eitt ljós fyrir allt herbergið sem er frábært þegar þig vantar birtu í tiltekt og þrifum - eða líka borð- eða vegglampa sem skapar rólegri stemningu er þú legst upp í rúm með bók í hönd?