Einfaldar lausnir til að fegra eldhúsið

Opnar hillur þykja móðins í eldhúsið.
Opnar hillur þykja móðins í eldhúsið. mbl.is/Michael Wiltbank/Domino

Eldhúsið er ekki bara stoppustöð til að borða, hita upp afganga og vaska upp. Það er oftar en ekki talað um eldhúsið sem hjarta heimilisins þar sem þú situr með góðum vinum yfir vínglasi eða krakkarnir gera heimavinnuna sína. Rýmið er sá staður á heimilinu þar sem þú vilt eyða tímanum þínum og þá viljum við líka hafa huggulegt í kringum okkur.

Það getur kostað morð fjár að fjármagna heilt eldhús, en það má finna ódýrari lausnir til að breyta eldhúsinu sem buddan ræður við. Bara með því að hengja upp nokkrar myndir,  kaupa blóm í fallegan pott eða fylgja einhverjum af þessum ráðum hér fyrir neðan.

Breyttu borðplötunni fyrir „slikk“
Borðplatan í eldhúsinu er stór flötur sem á það til að „öskra“ á þig og kalla á breytingu. En það getur reynst afar kostnaðarsamt að skipta út slíku. En þú getur á mjög einfaldan máta keypt filmu og filmað borðplássið þitt í eldhúsinu.

Skiptu um útlit
Ef þú áttir engan hlut í að hanna eldhúsið á sínum tíma og langar til að breyta um útlit, þá er einföld lausn að skipta um hurðar þar sem skáparnir sem slíkir eru tímalausir. Nú eða einfaldlega að sletta smá málningu á frontana ef þú vilt bara skipta um lit.

Nýjar höldur
Önnur leið til að breyta til í eldhúsinu er að skipta um höldur. Þessi litla einfalda aðgerð getur haft mikið að segja.

Eldhús eins og fagmennirnir nota
Ef þú nennir ekki alltaf að finna fram réttu pottana og pönnurnar eða áhöldin í skúffunum, þá er kannski hugmynd fyrir þig að hengja þessi áhöld upp eins og kokkar í stóreldhúsum gera. En til þess þarftu plássið og útfæra það rétt svo hugmyndin reynist þér gagnleg.

Fallegur bakgrunnur
Veggplássið sem liggur á milli efri og neðri skápanna verður oft á tíðum skítugt er matur slettist upp á vegginn. Þú þarft ekki að leggja út mikinn pening fyrir stórkostlegum flísum þegar þú getur notast við margar aðrar lausnir. Það finnast í dag hellingur af flísum í límmiðaformi sem auðvelt er að þrífa eða skipta um, eins plötur úr ýmiskonar efnum sem auðvelt er að láta saga út fyrir sig í réttri stærð.

Opnar hillur
Þú þarft ekki að vera hönnunar-nörd til að vita að opnar hillur í eldhúsum eru mjög móðins. Leyfðu fallegu leirtaui að njóta sín betur i opnum hillum.

Ljós
Rétt lýsing skiptir höfuð máli. En hér ætlum við ekki að ræða um magn af perum eða perustyrk. Fjárfestu í einu fallegu ljósi og eldhúsrýmið mun taka miklum breytingum.

Það má breyta eldhúsrými fyrir lítinn pening.
Það má breyta eldhúsrými fyrir lítinn pening. mbl.is/Diana Paulson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert