„Þá er enginn heilagur grillmeistari“

Halla María Svansdóttir
Halla María Svansdóttir mbl.is/

Hvað grilla meistararnir? Við fengum Höllu Maríu Svansdóttur sem á veitingastaðina Hjá Höllu í Leifsstöð og Grindavík til að svara nokkrum grunvallarspurningum um lífið og grillið!

Nafn: Halla María Svansdóttir

Staða: Eigandi veitingastaðarins Hjá Höllu í Grindavík og í Leifsstöð

Hvernig grillgræja er á heimilinu? Við erum með Weber-grill á heimilinu og er það úti allt árið um kring.

Hvaða matur er bestur á grillið?

Mér finnst allt gott - það er aftur á móti misjafnt hvað meðlimir heimilisins vilja. Við erum duglegri að grilla kjöt en fisk, en mér finnst fiskurinn alltaf ótrúlega góður á grillið og myndi ég velja hann oftar ef hann væri aðeins vinsælli á heimilinu.

Grillar þú mest yfir sumartímann eða allt árið um kring? Við grillum meira á sumrin, sérstaklega þessa dagana þegar veðrið er svona gott, en við grillum allt árið. Til að mynda höfum við grillað síðustu tvenn áramót heima hjá okkur fyrir stórfjölskylduna þrátt fyrir mikinn kulda.

Ertu týpan sem „á“ grillið og enginn annar kemst nálægt? Nei, alls ekki. Við erum dugleg að fá vinahópinn í mat og þá er enginn heilagur grillmeistari, heldur leggja allir sitt af mörkum og fá að spreyta sig á teininum.

Hvað er ómissandi í góðri grillveislu? Held að maðurinn minn myndi klárlega segja einn kaldur á kantinum, en það klikkar víst seint að hafa gott vín með góðum mat. Ég var mikið fyrir að hafa gott salat með matnum og auðvitað sósu, en núna er nýjasta æðið að vera með góða ólífuolíu og ferskan parmesan með kjötinu, ásamt grilluðu grænmeti – mér finnst það hrikalega gott og góð tilbreyting.

Í raun er ekkert eitt sem er ómissandi, en ætli ég verði ekki að nefna að ein köld hvítvínsflaska og góða skapið sé nauðsyn í góðri grillveislu.

Áttu gott grillráð handa okkur? Einfalt er alltaf best svo mér finnst mikilvægt að velja gott, hágæða hráefni og leyfa því að njóta sín.

Elva Hrund Ágústsdóttir elva@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert