Það getur verið ótrúlega pínlegt þegar fólk færir sig frá þér vegna þess að andfýlan yfirtekur svæðið. Við höfum öll upplifað það að finna andfýlu hjá öðrum eða vera andfúl sjálf. En hvernig getum við haldið munninum í góðu jafnvægi?
Andfýla stafar einna helst af bakteríum í munninum. Flest okkar búa við þau lífsgæði að geta tannburstað okkur daglega, notað tannþráð og jafnvel munnskol sem hjálpar allt til að losna undan bakteríunum. Í einstaka tilfellum getur eitthvað verið að hrjá okkur í lungunum, maganum eða einhvers konar sýking í líkamanum sem kallar fram andfýluna. En í langflestum tilvikum getur þú reiknað með að ástæðan sé eitthvað sem þú hefur borðað.
Hvað er til ráða?
Burstaðu tennurnar tvisvar á dag og notaðu tannþráð í það minnsta einu sinni yfir daginn til að halda matarleifunum í góðri fjarlægð – en matarleifar eru ein af aðalástæðum andfýlu.
Hreinsaðu tunguna! Yfirborð tungunnar geymir dauðar húðfrumur, matarleifar og bakteríur, svo þú getur rétt ímyndað þér lykina sem getur komið frá því. Því er ágætisráð að bursta líka tunguna eftir að þú hefur burstað tennurnar.
Munnvatnið er gott og inniheldur súrefni sem hindrar að bakteríurnar setjist að í munninum. Mundu að drekka nóg af vatni yfir daginn, jafnvel eftir morgunbollann, því það hjálpar pH-gildunum að vera í jafnvægi.
Tyggjó kemur þér ákveðið langt – í raun er það eins og svitalyktareyðir undir hendurnar. Það hjálpar þér á stað og stund en ekki til lengri tíma.
C-vítamín er eins og kriptónít fyrir bakteríurnar í munninum. Melónur, ber og appelsínur eru einstaklega góðar fyrir munninn og innihalda mikið af C-vítamínum. Eplabátar geta því verið góður eftirréttur, bæði fyrir munninn og kroppinn.
Slepptu sígarettunum – það segir sig sjálft að þær eru engan veginn að hjálpa til við andfýluna, né heilsuna yfir höfuð.
Heimsæktu tannlækninn ef þú hefur prófað allt hér fyrir ofan og ekki snert hvítlauk í langan tíma. Það er fínt að leita til fagaðila sem kann sitt fag.