Sósuáhugi Læknisins í eldhúsinu hefur vart farið fram hjá neinum og nú ákvað hann að skella í sósu sem hann fullyrðir að sé besta sósa sem hann hefur nokkurn tíman lagað - eða því sem næst. Sósan sé afskaplega einföld en Ragnar segir að galdurinn sé fólginn í því að steikja laukinn og sveppina á lágum hita til að ná fram öllu bragðinu.
Langbesta sveppasósan!
Aðferð:
Sveppirnir voru skornir gróflega niður.
Ég byrjaði á því að brúna smátt skorinn lauk, helminginn í einni pönnu, og hinn helminginn í hinni í 50 g af smjöri. Steikti laukinn við lágan hita í um 10 mínútur eða svo.
Þá bætti ég sveppunum saman við - Flúðasveppunum í eina pönnuna og svo portobello í hina og steikti í 15 mínútur eða svo - þangað til að sveppirnir voru brúnaðir. Þegar nokkrar mínútur voru liðnar af steikingunni bætti ég hvítlauknum saman við - tveimur rifjum í hvora pönnu ásamt tveimur lárviðarlaufum.
Þegar sveppirnir voru búnir að fá á sig fallegan lit setti ég vínið saman við sem ég sauð niður um helming. Svo vatn, svo kjúklingakraft, sauð upp og svo niður um þriðjung. Þá bætti ég rjómanum saman við og lét krauma í um hálftíma.
Varðandi soðið þá notaði ég kjúklingakraft af því að ég var að elda kjúkling - væri ég með naut, lamb ... myndi ég nota viðeigandi kraft. Einfalt.
Báðar sósurnar voru ljúffengar - sú sem var gerð úr Flúðasveppunum var með sýrðari keim og jafnvel pínu „floral“ bragði - smá blómakeim.
Það kom mun meira sveppabragð - meira umamibragð af portobellosveppunum. Í raun heppnaðist sú sósa betur - gestir voru spurðir og flestir voru sammála um niðurstöðuna.