Flest viljum við ljúka heimilisþrifunum eins fljótt af og mögulegt er. En það er svo oft þannig að þegar við flýtum okkur of mikið endum við á því að eyða meiri tíma í verkið.
Ryksuga fyrst
Gleymdu því að byrja á því að ryksuga áður en þú þurrkar af úr hillunum. Þá þarftu að fara yfir gólfið allt aftur.
Þrífa gluggana á sólardögum
... er algjört bann! Þú sérð kannski skítinn betur í sólinni en glugginn þornar líka fyrr og þar af leiðandi koma rákir á glerið ef þú ert ekki eldsnöggur að þurrka bleytuna og sápuna burt.
Þú skiptir ekki um ryksugubursta
Þegar þú ryksugar gólfið og ferð svo beint með ryksuguna upp í sófa og ryksugar hann – þá dreifist allt kuskið og hárin undan burstanum og þú endar með því að þurfa renna yfir sófann aftur til að þrífa upp eftir sjálfan þig.
Þú skolar allt of vel fyrir uppþvottavélina
Flest skolum við diska og annað leirtau það vel að það þarf varla snúning með uppþvottavélinni, við gætum allt eins klárað verkið og vaskað upp. Það er í lagi að taka matarleifarnar af diskunum en það er algjör óþarfi að skola þá mikið því uppþvottavélin er hönnuð til að sjá um verkið. Frekar að spara dýrmæta vatnið!
Þú leyfir ekki efnum að virka
Kannastu við að spreyja efni t.d. inn í sturtuna og byrja strax að skrúbba? Leyfðu efninu að virka áður en þú hefst handa – annars endar þú súr á svipinn því þú hefðir allt eins getað sleppt þessu; hvorki efnið né skrúbbið virkar. Gefðu þessu tíma. Spreyjaðu á flötinn sem þú ætlar að þrífa og gerðu eitthvað annað á meðan efnið tekur við sér og komdu svo inn í verkið af fullum krafti.
Stóru heimilistækin
Ekki gleyma að þrífa stóru heimilistækin. Ryksuguna, þvottavélina, þurrkarann og uppþvottavélina svo eitthvað sé nefnt. Við viljum alls ekki að stóru tækin bili á ögurstundu.